151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[17:52]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Punktarnir í ræðu minni voru í reynd þeir að ég held að það sé nokkuð viðtekin skoðun að staða íslenskra fjölmiðla, einkarekinna fjölmiðla, sé veikburða, annars vegar vegna yfirburðarstöðu Ríkisútvarpsins á markaði og hins vegar vegna þess sem hefur verið að gerast á liðnum árum, og það er vandi sem fer vaxandi, sú staða sem þessar erlendu efnisveitur framkalla, þ.e. að hér séu orðnir til stórir aðilar á fjölmiðlamarkaði, aðilar sem greiða í besta falli takmörkuð gjöld, skatta hér og eru auðvitað ekki með innlent vinnuafl. Hvað RÚV varðar er lausnin sem ég nefndi annars vegar fólgin í því að taka RÚV alfarið af auglýsingamarkaði og hitt er auðvitað líka vel framkvæmanlegt, að takmarka veruna þar með einhverjum hætti. Það er auðvitað samtal með hvaða hætti það væri gert. Ég held að það sé þekkt að hægt sé að gera það og í því samhengi held ég að mætti t.d. líta til stöðu ríkisreknu miðlanna á Norðurlöndunum. En það sem ég er ósátt við hvað þetta mál varðar er að hér er ekki nefnt hvers vegna það er sem íslenskir fjölmiðlar eru í þeirri stöðu sem þeir í reynd eru í og í staðinn eigi að fara þessa leið, að leggja á borð einskiptisaðgerð um styrki. Og svo að það sé sagt er ég þeirrar skoðunar að fyrst rót vandans er ekki tækluð geti ég haft samúð með því sjónarmiði að það megi í þetta eina sinn fara þessa leið þó að ég sé ekki hrifin af henni.