Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[18:14]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ég hafi orðað þetta þannig áðan að ég væri í eins konar valkreppu eða að ég væri kominn upp að vegg þegar kæmi að þessu frumvarpi. Ég er hins vegar sjálfur sannfærður um að ef við berum gæfu til þess að stíga þetta skref sem ég var að tala um — og mér heyrðist hv. þingmaður vera sammála skynsemi þess að taka Ríkisútvarpið alfarið af samkeppnismarkaði, við erum að reyna að búa til eitthvert heilbrigt umhverfi — þá muni ekki þurfa þær opinberu stuðningsaðgerðir sem við ræðum hér um og að það sé miklu heilbrigðara. Ég geri mér alveg grein fyrir því að verði þetta skref stigið mun örugglega koma fram krafa um að, eins og hv. þingmaður orðaði það og ég ætla að setja innan gæsalappa, „bæta Ríkisútvarpinu upp það tap“. Þá er spurning hvort við ættum ekki að bæta sjálfstæðum fjölmiðlum upp það tap sem þeir hafa orðið fyrir vegna aðgerða og fyrirgangs Ríkisútvarpsins á markaðnum undanfarið þegar það straujaði t.d. upp auglýsingamarkaðinn í kringum heimsmeistaramótið í knattspyrnu. Ég er alveg klár á því. Hluti af verkefninu er að skilgreina hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins samhliða. Ef menn telja að ekki sé hægt að reka Ríkisútvarpið fyrir þá 4–5 milljarða sem greiddir eru af skattgreiðendum þá þurfa menn að fara í gegnum það og spyrja sjálfa sig: Bíddu, er ekki hægt að fá eitthvað meira fyrir hverja krónu sem fer þarna inn? Það tel ég að sé hægt. Ég kem að því í seinna andsvari.