Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[18:19]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef á undanförnum árum sannfærst æ betur um að rök séu til þess að Ríkisútvarpið fari á fjárlög og að ekki verði innheimt útvarpsgjald eins og gert er. Ég held að það séu bara rök til þess, ég er sammála hv. þingmanni. Ég hef líka lagt til að Ríkisútvarpið verði þá eins konar farvegur fyrir dagskrárgerð um allt land og fyrst og síðast verði Ríkisútvarpið stofnun með svipuðum hætti og Sinfóníuhljómsveitin, Þjóðleikhúsið o.s.frv. nema að Ríkisútvarpið reki fréttastofu, öfluga fréttastofu, en öll önnur dagskrárgerð, sem á fyrst og síðast að vera íslensk — við gætum sagt eitthvert hlutfall af norrænu og eitthvað svoleiðis en fyrst og fremst íslensk — hana eigi að bjóða út. Við eigum að fara að lyfta upp sjálfstæðum framleiðendum úti um allt land þannig að við fáum þáttagerð frá Raufarhöfn, — ég tala nú ekki um Sauðárkróki, hv. þingmaður, þá fengjum við marga þætti þaðan og frá Skagafirði öllum, en að við fáum sjálfstæða dagskrárgerðarmenn sem munu spretta upp um allt land ef við förum í það að gera Ríkisútvarpið að eins konar farvegi fyrir íslenskt dagskrárefni sjálfstætt starfandi dagskrárgerðarmanna og kvikmyndaframleiðanda o.s.frv. Þetta er hugmynd sem ég lagði fram með mjög ítarlegum hætti fyrir fimm, sex árum í tímaritsgrein í því merka riti Þjóðmálum sem allir þingmenn ættu auðvitað að vera áskrifendur að en látum það nú liggja á milli hluta. Ég heyri að það er a.m.k. ekki gjá á milli okkar hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar í þessum efnum.