151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[19:03]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði einfaldlega að betur gengi að aðskilja ríki og kirkju heldur en Ríkisútvarpið. Sóknargjöld eru bara innheimt í gegnum ríkið. Það snýr ekki bara að kirkjunni, það snýr að öllum félögum. Þar að auki er varðar kirkjuna er ríkið að kaupa ákveðna þjónustu á móti. Við leggjum hins vegar sérstakan skatt á suma landsmenn, ekki alla, sem gengur beint til Ríkisútvarpsins. Það er mikill munur á því heldur en við gerum varðandi ríki og kirkju. Það er auðvitað þannig að sannarlega má segja að það sé a.m.k. miklu meiri aðskilnaður milli ríkis og kirkju heldur en ríkisins og ljósvakamiðilsins sem enginn skilur af hverju er. Ég hef alltaf verið talsmaður þess að kirkjan eigi að vera sjálfstæð. Hún er orðin það núna, búið er að breyta þessu, þetta eru ekki lengur ríkisstarfsmenn. Kirkjan hefur sínar reglur. Vissulega má segja að RÚV sé náttúrlega mjög sérkennilegt ríkisapparat. Það er búið til hlutafélag með einhverri stjórn og kjörnir fulltrúar hafa ekkert eða lítið um það að segja. Það er bara orðið einhvers konar ríki í ríkinu. En ég skal samþykkja það að Ríkisútvarpið verði með sama hætti og kirkjan.