151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[19:06]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem mér hefur ekki síst fundist mjög merkilegt við málflutning Pírata, sem hafa barist gegn þjóðkirkjunni og verið miklir andstæðingar sambands ríkis og kirkju, er að aldrei hefur heyrst orð frá Pírötum um að ríkið ætti ekki að reka útvarp. Það hef ég aldrei heyrt. Það kann að vera einhvern tímann, ég hef aldrei heyrt það, aldrei. Öll baráttumál Pírata hafa einhvern veginn snúist um að ríkið komi ekki nálægt kirkjunni, hvorki til stuðnings né til að kaupa eitthvert endurgjald eða innheimta sóknargjöld, ekkert. En Ríkisútvarpið er alveg rosalega mikilvægt. Ég get alveg sagt að ég tel kirkjuna gera miklu meira gagn fyrir landsmenn heldur en nokkurn tímann Ríkisútvarpið. Aðrir sjá um það miklu betur heldur en það, það get ég alveg fullyrt.