151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[19:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir alveg ljómandi góða ræðu. Ég var í stærstum dráttum mjög sammála hv. þingmanni með þá nálgun sem hann hafði á málefnið sem við ræðum hér. Ég verð eiginlega að koma því að, frú forseti, af því að hér er minnst á þjóðkirkjuna að ég viðurkenni alveg að þjóðkirkjan hefur stundum undanfarin misseri fengið hárin á höfðinu á mér til að rísa enn meira en venjulega en þó ekki eins og Ríkisútvarpið sem ég hef séð í gegnum tíðina í rauninni þróast frá mér. Ég var mikill stuðningsmaður Ríkisútvarpsins fyrir nokkrum árum þegar Ríksútvarpið var fjölmiðill allra landsmanna. Nú er þetta einhvers konar fjölmiðill góða fólksins. Það er ekkert annað sem kemst að í þessum miðli sem er mjög sorglegt að sjálfsögðu. Ríkisútvarpið hefur að mínu mati í rauninni brugðist því hlutverki sínu að sinna öllum skoðunum. Við sjáum t.d. hvaða sérfræðingar eru fengnir þar í umræðuþætti. Ég man ekki eftir því að hægri menn hafi fengið mikið að koma þar, svo að ég nefni það nú bara, en ég ætla ekki að rífast um það við hv. þingmann.

Ég verð að stríða hv. þingmanni aðeins vegna þess að hann var eitthvað að skjóta á okkur í Miðflokknum. Vissulega er það þannig að við erum stundum kannski pínu sveitaleg í þessum flokki og það er nú aðallega þegar við erum að horfa á byggðirnar og landbúnaðinn og eitthvað slíkt. En hv. þingmaður, síðastliðin 37 ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn ráðið menntamálaráðuneytinu í 27 ár. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið og farið með mál Ríkisútvarpsins í 27 ár af þessum 37. Ég veit að hv. þingmaður er ekki búinn að vera á þingi þennan tíma og ég veit að hv. þingmaður hefur allt aðrar skoðanir á þessu heldur en kollegar hans á þeim tíma, held ég. Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem breytti þessu í ohf. Það eru því hæg heimatökin að breyta aðeins um kúrs og reyna að hysja upp um sig í þessum ágæta flokki, Sjálfstæðisflokknum. Maður er oft sammála því sem kemur frá honum en það er staðreynd að menn hafa bara ekki staðið vaktina. Þess vegna hefur Ríkisútvarpið farið þá leið sem það hefur farið, er orðið að því sem það er í dag.