151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[19:09]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt. Sjálfstæðisflokkurinn ber auðvitað sína ábyrgð og hann hefur stjórnað menntamálaráðuneytinu mjög mikið síðustu áratugi. Það breytir ekki því að það hefur aldrei verið pólitískur meiri hluti hér á þinginu fyrir þeim breytingum sem Sjálfstæðismenn hafa talað fyrir, aldrei. Það er alveg rétt að þetta ohf.-dæmi hefur gengið illa. Það sem gerist í því er að þetta verður bara eitthvert einkafirma þeirra sem stjórna þessu. Þess vegna upplifa menn, eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, að það séu bara ákveðin sjónarmið þar ofan á. Allt hlutleysi fer út í veður og vind smám saman. Það gerist kannski ekki í einu vetfangi. Þetta er auðvitað vandinn. Þetta er vandinn við ríkisrekstur á markaði. Yfirburðafélag á markaði, ríkisfélag, skapar þennan vanda. Við eigum hvergi að hafa það þannig. Eini staðurinn þar sem ríkið á að vera er bara þar sem enginn samkeppnismarkaður er, enginn markaður er til. En okkur finnst alltaf í lagi að ríkið fari ekki eftir neinum reglum. Það þarf ekkert af því að það er fyrir sjóðinn okkar. Menn átta sig ekki á því að verið er að skemma þennan markað. Á endanum töpum við á því. Það er auðvitað bara vandinn. Ég ætla ekkert að undanskilja Sjálfstæðisflokkinn neinni ábyrgð í þessu. Ég hef alltaf vitað að margir Sjálfstæðismenn eru uppteknir af því að hafa alltaf sitt RÚV, annars er dagurinn ónýtur. En þetta er samt úrelt, hv. þingmaður.