151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[19:13]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, já, menn nefna oft BBC, breska ríkisútvarpið, sem er auðvitað allt annar handleggur. Þeir eru ekki á auglýsingamarkaði þannig að öll samkeppnisstaða er mjög ólík. Þetta er hins vegar bara ríkisfélag sem er í venjulegum viðskiptum, framleiðir efni o.s.frv. í samkeppni, allt öðruvísi. Ég tek eftir því að Danir eru orðnir mjög hugsi yfir Danmarks radio og hafa nú dregið úr kostnaði við það og dregið niður í starfsemi þess. Það er ekki hægt að bjóða skattgreiðendum endalaust upp á þetta. Ég held að við verðum bara einfaldlega að taka þetta. Það verður hins vegar alltaf erfitt þegar við höfum ríkisútvarp þar sem stór hluti kjósenda þarf ekki að greiða afnotagjöld. Þeir munu aldrei verða á móti þessu. Þetta er auðvitað niðurgreitt af skattgreiðendum. Þá er svo auðvelt að fá fólk til að vera bara sátt við ástandið. Þess vegna er svo erfitt að breyta þessu þótt allir viti í grunninn að þetta er löngu úrelt, mun skaða sjálfstæðu miðlana og mun eyðileggja þennan markað. Menn verða þá að svara því hvort menn eru sáttir við það eftir tvö ár að hætta þessum stuðningi (Forseti hringir.) og leyfa bara þessum miðlum að deyja.