151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[19:15]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir prýðisræðu sem var ágæt að flestu leyti nema að hann fór illilega út af sporinu þegar hann taldi að í Miðflokknum væri ekki frumkvöðulsandinn. Og af því að það er nú þannig að hjörtu mín og hv. þingmanns og þingmanna Miðflokksins hafa slegið í nokkuð miklum takti oft og tíðum þykir mér þetta koma úr hörðustu átt. Ég skrifa þetta á það að hann hafi bara ekki lagt við hlustir, t.d. í þessu máli þar sem við höfum lagt til að menn megi sjálfir ráðstafa útvarpsgjaldi sínu hvert sem þeir vilja. Eins og ég segi held ég að hv. þingmaður hafi ekki hlustað.

Ég vil hins vegar í kjölfarið á ræðu hv. þingmanns og hv. þm. Óla Björns Kárasonar leyfa mér að efast um að meiri hluti sé fyrir þessu þingmáli í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Ég bið hv. þingmann um að leiðrétta mig ef það er röng niðurstaða hjá mér. Ég vil líka spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um að m.a. með framlögðu frumvarpi hv. þm. Óla Björns Kárasonar og hv. þm. Brynjars Níelssonar nú í kvöld og þingmáli okkar Miðflokksmanna um að menn ráði sjálfir sínum næturstað þegar kemur að útvarpsgjaldi verði málið kallað til nefndar á milli 2. og 3. umr. Ég geri það að tillögu minni nú, frú forseti. Ég bið hv. þingmann að taka undir það með mér að þetta mál fari aftur til nefndar í ljósi þess sem ég sagði áðan, þ.e. í fyrsta lagi að vafi leiki á því að meiri hluti sé fyrir málinu í Sjálfstæðisflokknum, í öðru lagi að það þurfi að ræða þetta mál með máli þeirra félaganna tveggja sem kemur fram í kvöld og með hliðsjón af því máli sem Miðflokkurinn hefur lagt fram um að menn geti sjálfir ráðstafað útvarpsgjaldi eða hluta þess til þess fjölmiðils sem þeir kjósa.