151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[19:32]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson hefur áhuga á að vita hvað gerist í þingflokksherbergi Sjálfstæðisflokksins get ég upplýst að þar er lifandi umræða, þar er tekist á og menn reyna síðan að koma sæmilega samstilltir til leiks. Vissulega er ágreiningur innan Sjálfstæðisflokksins um hlutverk Ríkisútvarpsins en það er enginn ágreiningur held ég um að styrkja menningarstarfsemi. Menning þjóðarinnar og arfleifðin er mikilvæg en fæstum okkar í Sjálfstæðisflokknum finnst að það þurfi að vera ríkisstofnun sem rekur útvarpsstöð.

Ég spyr því hv. þingmann: Er Miðflokkurinn til að mynda þeirrar skoðunar að ríkið þurfi sjálft að reka útvarpsstöð til að hægt sé að miðla menningarlegu efni eða geta aðrir gert það? Getum við styrkt aðra til þess ef menn ætla að gera það? Hver er stefna Miðflokksins í raun og veru varðandi ríkisrekstur eða ljósvakamiðilinn eða fjölmiðlamarkaðinn yfir höfuð? Hvert á hlutverk Ríkisútvarpsins að vera þar? Á það að vera eitthvert? Styður Miðflokkurinn til að mynda frumvarp okkar Óla Björns Kárasonar um að taka RÚV af auglýsingamarkaði eða telur Miðflokkurinn að rétta leiðin sé að allir séu skyldugir til að borga í einhvern miðil en fái bara að velja? Ef hv. þingmaður gæti útskýrt þetta aðeins nánar fyrir þingmanninum.