151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[19:35]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þessa greinargóðu lýsingu á andrúmsloftinu í þingflokksherbergi Sjálfstæðisflokksins. Það var örugglega mörgum kærkomið að fá að heyra, ekki bara þeim sem hér stendur. Af því að hv. þingmaður spurði um stefnu Miðflokksins varðandi Ríkisútvarpið kemur afstaða flokksins best fram í því að við lögðum fram þá tillögu að til að byrja með gæti hluti útvarpsgjalds verið varið af þeim sem borga til þeirra miðla sem þeir vilja borga í. Ég held að það verði ekki skýrara. Ég sagði áðan sjálfur í ræðunni, og nú verð ég aftur að gráta það að hv. þingmaður skyldi ekki hlusta vel, að ég sæi t.d. enga þörf á því að íslenska ríkið ræki sjónvarpsstöð þar sem við hefðum hér sjónvarps- og efnisveitur í hundraðavís í gegnum net og aðra miðla. Það að vera með ríkishlutafélag sem þess utan, ef nýframsett mál verður að lögum, verður að kaupa 30% evrópskt efni til að láta okkur leiðast enn þá meira — ef það verður ofan á held ég að miklu betra væri að finna einkaaðila sem treystir sér til að reka sjónvarpsstöð á 30% evrópsku efni og fá honum bara lyklavöldin að því. Aðalatriðið er að við leggjum til, eins og ég hef sagt hér nokkrum sinnum áður, að almenningur sjálfur fái að velja í hvaða ljósvakamiðil hann borgar sitt afnotagjald.