151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[20:02]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir góða ræðu, frábæra ræðu. Ég vil spyrja samt: Við erum að tala um að jafna samkeppnisstöðu á fjölmiðlamarkaði, þetta snýst auðvitað um það eða ætti að snúast um það, hvernig gerum við það? Hv. þingmaður minntist aðeins á að jafna stöðuna gagnvart erlendu efnisveitunum. Hvernig sér hann fyrir sér að við gerum það? Með hvaða hætti yrði það gert? Hvernig glímum við við Ríkissjónvarpið í því? Hvað þarf að gera gagnvart Ríkissjónvarpinu nákvæmlega? Ég átta mig á tillögum Miðflokksins um að hver geti stutt sinn miðil með hluta af útvarpsgjaldinu, þó bara hluta af því ef ég man það rétt. Er það nóg til að jafna stöðuna? Ef hann gæti aðeins nánar útskýrt hvert væri hið besta úrlausnarefni í þessu til að leikar verði jafnaðir. Hvernig náum við að jafna leikinn? Og hvernig sjáum við þá fyrir okkur fjölmiðlamarkað í framtíðinni?