151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[20:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi efnisveiturnar og samfélagsmiðlana þá er ég svolítið hræddur um að við eigum ekki annan kost til að jafna stöðuna hvað það varðar en að lækka eða fella niður skattana á íslensku miðlana. Það er nefnt í tengslum við þetta frumvarp, m.a. í áliti meiri hlutans, að skoða þurfi skattlagningu erlendu miðlanna. Það er sjálfsagt og eðlilegt að gera það ef menn finna leiðir til þess en það hefur reynst mjög erfitt. Í Ástralíu hafa stjórnvöld verið að reyna það og farið í hart við þessa aðila en mjög erfitt hefur reynst að finna skilvirka leið til að gera það. Ég ítreka þó að ég leggst alls ekki gegn því að það verði reynt. En í millitíðinni er eðlilegt, til að jafna samkeppnisstöðuna, að fella niður þessi gjöld á íslensku miðlana.

Hvað varðar lausnina varðandi Ríkisútvarpið og áhrif þess er það rétt sem hv. þingmaður segir að í tillögu okkar er gert ráð fyrir að þetta verði aðeins hluti gjaldsins til að byrja með enda er tillagan, eins og ég nefndi áðan, lögð fram af hefðbundinni hófsemi og talið nauðsynlegt að gefa þessari ríkisstofnun svigrúm til að aðlagast. Svo er hægt að þróa þetta áfram og þá jafnframt að gefa fólki kost á að styðja fleiri en einn miðil. Það þyrfti ekki að setja allt saman á einn og sama miðil. Ég sé fyrir mér að þessi tillaga gæti virkað vel í bland við tillögu hv. þingmanns og hv. þm. Óla Björns Kárasonar. Ég held að vel sé hægt að sameina þessar tillögur í eina, fá út eina ofurtillögu frá þessum ágætu hópum. Þess heldur er mikilvægt að þessar tillögur fái umræðu í nefndinni áður en við klárum það mál sem hér er til umræðu.