151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[20:06]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Forseti. Takk fyrir þetta. Ég held að það sé ekki langt á milli okkar, mín og hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hvernig við sjáum framtíðina í þessu og möguleikana. Ég tek undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að jafna stöðuna á þessum markaði. Það er hugsanlegt að taka þetta í skrefum, einhverjum skrefum, og kannski þess vegna eru þessar tillögur uppi, til að gefa ákveðna aðlögun og reyna að koma á eðlilegum samkeppnismarkaði hvað varðar fjölmiðla. En nú stöndum við frammi fyrir því — og nú ætla ég að spyrja sálfræðinginn, hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson, hvernig á því standi að þegar það koma tillögur um að jafna þessa stöðu fer meiri hluti þingmanna alltaf í vörn fyrir þetta ákveðna ríkisfyrirtæki. Það er eins og ekki megi hreyfa við því, það eina sem má er að auka útgjöldin, auka umsvifin. Kann þingmaðurinn einhverja skýringu á því? Hver kann að vera skýringin á þeirri sérstöku vernd sem virðist vera svo rík þörf hjá mörgum að veita þessum ríkismiðli, sem er auðvitað fíllinn í stofunni og allir vita það? Samt er hér einhver verndarhjúpur, póliltískur verndarhjúpur, og það eina sem menn hugsa um er að reyna að stækka þennan fíl og ætla svo að leysa málið með því að henda einhverjum stuðningi út til að halda einhverju á lífi. Kann þingmaðurinn og sálfræðingurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson einhverja skýringu á þessu?