151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[20:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Nú sé ég eftir að hafa ekki komið í „tweed“-fötunum mínum, í réttum búningi, en ég skal spreyta mig á sálfræðinni í þessu. Hér kemur a.m.k. tvennt til. Annars vegar það sem var kannski meira ríkjandi hér áður fyrr; nostalgía, fortíðarþrá, væntumþykja fyrir þessari stofnun. Ég hef verið haldinn þeirri nostalgíu líka og hún blundar býsna lengi í manni og er hérna inni enn þá. Á jólunum vill maður hlusta á Ríkisútvarpið á ákveðnum tímapunkti o.s.frv. og þegar ákveðnir atburðir eru í gangi. Þetta vissulega telur. Mér þótti mjög vænt um Ríkisútvarpið og var stuðningsmaður þess þegar það var gamla góða RÚV, ef svo má segja.

Hitt sálfræðilega atriðið er ótti. Margir þingmenn og ráðherrar, kannski ekki hvað síst ráðherra málaflokksins hverju sinni, ég held að í þeim blundi oft ótti við að gagnrýna Ríkisútvarpið af því að þeir gera ráð fyrir að þá verði þeim refsað, þeir fái ekki eins mikla eða ekki eins góða umfjöllun. Svo er auðvitað hin hliðin á þessari sálfræði að vilja koma sér í mjúkinn í von um að fá þá meiri umfjöllun eða jákvæðari umfjöllun. Það er náttúrlega ekki góð staða ef þessi ríkisstofnun, eða hluti hennar, lifir í ótta við aðra ríkisstofnun. Ekki er það þó betra ef búið er að ríkisvæða alla miðlana og popúlistarnir fara að spila á það. Og auðvitað skortir þá ekki hér í þessu þingi.