Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[20:27]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að leggja orð í belg varðandi þetta fjölmiðlafrumvarp. Ég hef einhvern tímann komið áður í ræðu varðandi frumvarpið en hér erum við með nefndarálit. Frumvarpið kom fram fyrir margt löngu síðan, líklega bara á síðasta ári ef ég man rétt, en er að birtast aftur á vormánuðum þegar sauðburður er langt kominn og stutt í þinglok. Þetta er í raun og veru mjög stórt mál, helst vegna þess hvað er ekki að gerast í frumvarpinu.

Nefndarálitið er frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Undir það skrifa a.m.k. tveir þingmenn, sýnist mér, Sjálfstæðisflokksins, formaður nefndarinnar og einn til. Þess vegna fannst mér einkennilegt að hlusta á Sjálfstæðismenn fyrr í dag og í kvöld. Þeir virðast ekki vera par hrifnir af málinu, finna því ýmislegt til foráttu og aðallega það sem ég var að tala um, að fjölmiðlamálin séu ekki tekin fyrir heildstætt í frumvarpinu heldur bara verið að plástra rekstrarvandræði einkarekinna fjölmiðla. Ekki er tekið á því sem skiptir kannski mestu máli og margir hafa fjallað hér um en þar á ég auðvitað við Ríkisútvarpið. Einhver nefndi að ekki væri minnst á það í greinargerð með frumvarpinu eða í nefndarálitinu. Ég hef ekki rannsakað það en tek því bara sem gefnu að ekkert sé talað um Ríkisútvarpið — sem ætti reyndar að vera aðalefnið í slíku frumvarpi þegar við, skattgreiðendur hér á landi, erum að greiða til Ríkisútvarpsins til að halda úti rekstri þess einhverja 5 milljarða á ári hverju. Samt er stofnunin rekin með tapi. Og verið er að bæta í einhverjum hundruðum milljóna á hverju ári. Fyrir utan það, og ég kem nú kannski frekar að því aðeins á eftir, þá sækir það um 2 milljarða á auglýsingamarkað. En ríkisstjórnin kýs að taka ekki á málinu. Ég tek undir með fjölmörgum öðrum þingmönnum sem hafa rætt þetta hér í dag að það er einkennilegt að ekkert sé lagt hér fram þar sem er tekið á raunverulega stærsta vandamálinu, sem er tilvera Ríkisútvarpsins.

Auðvitað er það augljóst, herra forseti, að þetta er orðin alger tímaskekkja. Tilvera ríkisútvarps var e.t.v. nauðsynleg fyrir 90 árum til að útvarpa fréttum til landsmanna og sinna skyldum þess í almannavarnaástandi, útvarpa veðurfregnum og öðru slíku í þeirra tíma samfélagi. En í dag er næsta auðvelt að sækja sér allra handa upplýsingar á netinu. Þetta er alls staðar og öllum aðgengilegt og raunverulega er í hvers manns vasa unnt að sækja sér upplýsingar sem í upphafi voru rökin fyrir því að Ríkisútvarpið var sett á laggirnar. Hugsum aðeins um það, herra forseti. Það voru rökin; almannavarnir, nauðsyn að útvarpa fréttum til allra landsmanna. Það er gjörbreytt í dag. Nú er þetta eins og steintröll hér í samfélaginu og tekur 7 milljarða á hverju ári af ríkinu og auglýsingamarkaði. Mér fyndist ekki skrýtið þó að samhliða þessu frumvarpi fengjum við að sjá hér aðgerðir til að létta þessu af landsmönnum á einhvern hátt, þó ekki væri nema að taka það skref að taka þennan fjölmiðil af auglýsingamarkaði og veita þannig rými og tækifæri fyrir aðra miðla að sækja sér tekjur á þessum markaði þó að ekki væri annað.

Svo má kannski einnig ræða að fullt tilefni er til að endurskoða stöðu Ríkisútvarpsins í þessu breytta starfsumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Samkvæmt frumvarpinu eru allir meira og minna að komast á ríkisstyrki. Það gengur auðvitað ekki, herra forseti, að ríkið gangi með sínum fjölmiðli næstum frá öllum samkeppnisaðilum sínum. Síðan komi ríkið og setji þessa sömu aðila á ríkisspenann þar sem þeir þurfa að bugta sig og beygja til að fá styrki, sækja um og skila pappírum og meiri pappírum og verða brátt komnir í öndunarvél ríkisins. Einfaldara hefði verið að ljúka einfaldlega þessari vegferð, byrja á að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði, rýma fyrir einkareknum fjölmiðlum og minnka þannig þörf þeirra fyrir ríkisforsjána sem hér er verið að mæla fyrir. Það munar um 2 milljarða, herra forseti. Þegar næstum allir fjölmiðlar verða komnir á ríkisframfæri verður auðvitað ákveðin hætta á einsleitni á markaði en það er einmitt fjölbreytileiki sem einkennir og á að einkenna fjölmiðla, sérstaklega einkarekna. Með því fáum við að sjá ólík efnistök, nýjar hugmyndir, sköpunargleði, ólík viðhorf, andstæðar skoðanir og átök. Verður einhver breyting á þessu með tilkomu ríkisstyrktra einkarekinna fjölmiðla? Verður það afleiðingin af þessari leið? Hvað verður um ferskleika samkeppninnar? Eða mætti t.d. ekki skoða tillögu Miðflokksins sem við lögðum fram fyrr í vetur þar sem við leggjum til að fólk ráði því sjálft hvaða fjölmiðil það styrkir, það velji það t.d. bara á skattframtalinu, kannski héraðsfjölmiðilinn í viðkomandi héraði eða bæ sem fólkið býr í eða einhvern fjölmiðil sem því líkar vel við og vill styrkja. Það myndi heldur betur auka samkeppni. Fjölmiðlar myndu kannski reyna að höfða til hlustenda sinna eða áhorfenda til þess að fá þessar tekjur. Hægt væri að hugsa sér að byrja smátt eins og við gerum ráð fyrir í okkar tillögu, það mætti vera fjórðungur eða þriðjungur af útvarpsgjaldinu. Síðan mætti halda áfram á þeirri leið og afnema þannig þennan ríkisfjölmiðil af framfæri almennings.

Herra forseti. Sjálfur tel ég að við eigum enn um sinn að reka hér Ríkisútvarp af algerri lágmarksstærð sem útvarpar fréttum og almannavarnatilkynningum, veðri o.s.frv. Það gæti kostað brot af því sem Ríkisútvarpið kostar í dag. Ég tel að einkareknir fjölmiðlar gætu séð um allt hitt. Þeir gætu séð um skemmtanagildið, fræðslu o.fl. Tillaga Miðflokksins liggur inni í nefnd og ég mæli með að fólk skoði hana með opnum huga. Hún gengur bara skref í þá átt að minnka þessi fjárútlát, sem hafa verið mikil, til Ríkisútvarpsins. Auðvitað er þetta bara hið hlægilegasta mál. Það er hlægilegt mál í raun og veru að við hér, 350.000 manna þjóð, þurfum að reka risavaxið sjónvarps- og útvarpsbatterí fyrir 7 milljarða. Ég veit ekki hve margir starfsmenn eru þarna. Kannski getur einhver þingmaður upplýst mig um það, ætli það séu ekki yfir 100, jafnvel fleiri en 200. Þetta er risavaxið batterí. Hún er svo fornfáleg þessi hugmynd að það getur ekki verið neitt nema hlægilegt þegar hægt er að senda út sjónvarpsdagskrá og búa til efni á mjög einfaldan og ódýran hátt í höndum einkaaðila. En við kjósum að halda áfram á þessari vegferð. Hér í þessum þingsal er auðvitað algjörlega bannað að tala á þennan hátt vegna þess að menn bugta sig og beygja fyrir Ríkisútvarpinu ella mega þeir kannski búast við trakteringum þaðan vegna þess að Ríkisútvarpið stjórnar auðvitað allri umræðu. Það stjórnar allri umræðunni, það gín yfir öllu á fjölmiðlamarkaði hér með sína sterku stöðu og mikla fjármagn sem það fær úr ríkissjóði og með skyldugreiðslum fólks í landinu. Þeir setja málefni á dagskrá sem mörgum finnst litast mjög af pólitískum áhugamálum þeirra sem þarna starfa. Þeir velja þá álitsgjafa — það er mjög áberandi — sem þeim hentar til að móta umræðuna, svo áberandi að það er nánast hlægilegt. Nei, herra forseti, við þurfum einhvern veginn að vinda ofan af þessu. Það er löngu kominn tími til.

Annað sem ég ætlaði að nefna sem ekki er tekið á í þessu frumvarpi er vandamál með tekjur fjölmiðla. Auglýsingatekjur hafa dregist saman og helst vegna þess að erlendar efnis- og streymisveitur hafa verið að taka til sín sífellt meira af þeim markaði. Við erum auðvitað ekki að fá neina skatttekjur af því. Hæstv. ráðherra minntist á það þegar hún mælti fyrir frumvarpinu að þetta væri vandamál sem þyrfti að taka á. Síðan hefur ekki heyrst neitt meira, það hefur ekkert heyrst í þá veru að taka eigi á þessu. Það stendur hér í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar varðandi þetta vandamál, með leyfi forseta:

„Í þeim efnum tekur meiri hlutinn fram að fjármála- og efnahagsráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið hafa til skoðunar skattlagningu erlendra efnis- og streymisveitna eða ígildi skattlagningar rafrænna viðskipta við erlendu miðlana. Meiri hlutinn áréttar“ — já, það má árétta þetta ansi lengi og oft — „mikilvægi þess að þeirri vinnu verði hraðað sem kostur er enda streymir þó nokkurt hlutfall af auglýsingatekjum úr landi og ekki eru greiddir sömu skattar og skyldur af þeim tekjum líkt og ef auglýst er innan lands.“

Þetta er auðvitað vandamál sem þarf að taka á en það bólar ekki á neinni lausn í þessum málum, engar tillögur hafa verið kynntar. Það liggur ekki frammi frumvarp varðandi það hvernig hæstv. ráðherrar ætla að taka á því stóra vandamáli sem við búum hér við að sífellt meira af auglýsingum í fjölmiðlum kemur í gegnum netið, tekjur af því streyma til útlanda en ekki hér innan lands og engar skatttekjur eru af þessu. Það er veruleiki sem einkareknir fjölmiðlar hafa þurft að glíma við og birtist með þeim hætti að tekjur þeirra fara síminnkandi.

Ég ætla einnig að fjalla örlítið um efnisatriði frumvarpsins. Auðvitað er þessi tilhneiging sem birtist í fjölmörgum stjórnarfrumvörpum sí og æ og líka hér að það eigi að stofnanavæða þessa úthlutun. Þarna er sett á stofn úthlutunarnefnd þriggja manna og sjálfsagt kemur skrifstofa í kjölfarið með starfsmönnum og fleiru. Þetta er svolítið apparat, ef ég mætti nota það orð, þ.e. það er svolítið bákn í kringum þetta. Þarna er því verið að stofnanavæða enn og aftur og setja á stofn nýtt bákn í kringum þessar úthlutanir. Þó að frumvarpið sé tímabundið grunar mig, eins og margir aðrir hv. ræðumenn hafa komið inn á, að þessi aðferð, þessar styrkveitingar séu komnar til að vera ef frumvarpið verður að lögum. Því miður.

Ég ætla rétt í lokin ef ég hef tíma að ræða aðeins rekstrarumhverfi héraðsfréttamiðla sem ég er sérstakur áhugamaður um. Ég vil endilega að þeir nái að lifa af allar þær breytingar sem hafa orðið í samfélaginu á undanförnum árum. Ég tel að þessir miðlar séu gulls ígildi, hver á sínum stað, fyrir íbúa í dreifðum byggðum. Rekstrarumhverfi héraðsfréttamiðla hefur breyst mikið, sérstaklega með aukningu rafmiðlunar. Það væri mikil eftirsjá að því, herra forseti, ef héraðsfréttamiðlar myndu týna meira tölunni en nú þegar er orðið en það hafa þeir gert undanfarin ár. Margir héraðsmiðlar hafa lagst af og aðrir dregið verulega saman seglin bara á síðustu árum. Bæði íslenskar og erlendar rannsóknir hafa ítrekað sýnt fram á menningarlegt og lýðræðislegt mikilvægi staðbundinna fjölmiðla. Þessar rannsóknir hafa m.a. sýnt fram á að þar sem héraðsfréttamiðlar hverfa minnkar aðhald gagnvart stjórnvöldum og fyrirtækjum, minnihlutahópum reynist erfiðara að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og samfélagsþátttaka minnkar sem aftur dregur úr þátttöku í lýðræði, svo sem kosningum. Það væri því mjög mikið áhyggjuefni ef héraðsfréttamiðlar týndu tölunni meira en orðið er. Þess vegna ætla ég að koma að einni athugasemd varðandi lágmarksstarfsmannafjölda sem í frumvarpinu er gert ráð fyrir að séu þrír. Ég tel nú að sumir héraðsfréttamiðla beri það nú ekki einu sinni.