151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[20:47]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Það hillir undir lok þessarar umræðu. Ég stóðst ekki mátið út af umræðunni sem átti sér hér stað að blanda mér aðeins í hana. Ég get ekki sagt að ég sé hoppandi kát með niðurstöðuna en engu að síður er það þannig, og ég held að allir hér í þessum sal séu sammála og þótt víðar væri leitað, að fjölmiðlar á Íslandi skrimta. Fjölmiðlar eru mikilvægir, þeir eru mikilvægir lýðræðinu okkar. Öllum lýðræðissamfélögum er nauðsynlegt að eiga öfluga fjölmiðla, í rauninni á maður að segja frjálsa og öfluga fjölmiðla. Þess vegna er það auðvitað öfugsnúið að ríkið hyggist styrkja fjölmiðla. Engu að síður er öllum ljóst að eitthvað þarf að gera. Í umræðunni um stöðu fjölmiðla finnst mér við oft uppteknari af því að skjóta niður þær hugmyndir sem þó hafa komið fram heldur en að koma fram með góðar hugmyndir um hvernig beri að laga þessa skökku stöðu. Auðvitað hefur ýmislegt verið nefnt í þeim efnum en ég vildi þó segja það hér, virðulegur forseti, vegna þeirrar umræðu sem átti sér stað áðan um hvort Sjálfstæðismenn myndu nokkuð samþykkja þetta, að auðvitað skrifa Sjálfstæðismenn í hv. allsherjar- og menntamálanefnd upp á nefndarálitið. Og ég mun koma til með að styðja þetta mál.

Auðvitað er þetta ekki framtíðarlausn. Þetta er í rauninni bara tímabundin lausn á mjög alvarlegri stöðu sem mér finnst okkur bera skylda til að bregðast við. En ég get alveg tekið undir það sem hér hefur verið rætt að það er í rauninni ekki hægt að tala um stöðu fjölmiðla á Íslandi öðruvísi en að ræða líka um Ríkisútvarpið. Það er eiginlega bara algerlega út úr kortinu að ætla sér að taka fyrir umhverfi fjölmiðla og byggja þeim betri undirstöður öðruvísi en að horfa til Ríkisútvarpsins. Ég hefði að sjálfsögðu viljað sjá okkur á þessu kjörtímabili ná árangri í því að skýra frekar hlutverk Ríkisútvarpsins. Og þegar ég segi skýra frekar hlutverkið þá er ég að meina að mér finnst eðlilegt að við höfum ríkisútvarp en mér finnst óeðlilegt hversu stórt Ríkisútvarpið er og hversu umsvifamikið það er á þessum markaði.

Ég veit að hér á eftir ræðum við frumvarp um breytingar á lögum um Ríkisútvarpið þar sem á að taka á sölu auglýsinga og slíku. Ég verð að viðurkenna að mér finnst eiginlega bara leiðinlegt að ég skuli ekki vera meðflutningsmaður á því ágæta frumvarpi því að mér sýnist ég geta skrifað undir allt sem þar er. Það er að mínu viti nauðsynlegt að taka jafnframt á því annars vegar að taka RÚV út af auglýsingamarkaði og hins vegar að minnka umsvif þess á fjölmiðlamarkaði. Að því sögðu held ég að það hefði kannski verið lausnin fyrir tíu árum síðan en ég held að það geti því miður ekki verið heildstæð lausn í dag. Þegar við horfum á hvernig fjölmiðlar eru í nágrannalöndunum okkar, sem þó eru mun fjölmennari lönd og þar af leiðandi mun stærra málsvæði, þá virðist samt þurfa að beita ákveðnum aðgerðum þar til að tryggja viðunandi rekstrargrundvöll fjölmiðla.

Einhvern veginn hefur svo ofboðslega margt breyst í rekstri fjölmiðla á síðustu árum. Fyrir utan það að hver einasti maður er bara með fjölmiðil í vasa sínum og getur sagt það sem hann lystir í gegnum samfélagsmiðla og á sínu svæði þá er auglýsingamarkaðurinn líka algerlega búinn að umturnast. Það þekki ég ágætlega, hafandi lært það á sínum tíma í háskóla þegar maður lagði mikið upp úr því hvernig hægt væri að gera auglýsingaplön og hvaða miðlar myndu henta best. Nú sér maður að risastór vörumerki og stórfyrirtæki auglýsa lítið sem ekkert með hefðbundnum hætti eins og við þekkjum heldur er þetta ofboðslega mikið komið inn á samfélagsmiðlana sem auglýsingar en ekki síður í gegnum áhrifavalda. Það er því alveg ljóst að þessi fjölmiðlamarkaður hefur breyst gríðarlega. Þess vegna hljóta þær aðgerðir sem við þurfum að grípa til að vera fjölþættar.

Þá aðgerð sem við ráðumst hér í er með réttu hægt að kalla Covid-aðgerð. En ég tek undir það að auðvitað voru fjölmiðlar í vanda fyrir Covid og vinna við það hafin löngu fyrir faraldurinn. En einhverra hluta vegna hefur okkur ekki tekist — þegar ég segi okkur á ég kannski við forvera mína hér á þingi, hvort sem þeir voru í þingflokki Sjálfstæðisflokksins eða þingflokki Framsóknarflokks á sínum tíma eða í öðrum þingflokknum — að ná utan um þetta mál. Staðan hefur eiginlega bara versnað.

Að þessu sögðu, virðulegur forseti, hyggst ég styðja þetta mál. Ég tel það ágætislendingu í bili en engan veginn fullnægjandi framtíðarsýn um það hvers konar umhverfi við þurfum að búa fjölmiðlum. Það kallar augljóslega á meiri og dýpri umræðu þó að umræðan hafi verið töluverð hér nú þegar. En það er eitthvað sem við þurfum að bæta úr á komandi árum. Við þurfum að vera með raunhæfa lausn um það hvernig við búum fjölmiðlum vænlegt umhverfi. Ég hef einna helst horft til skattkerfisins, lægri skatta, sérstaklega fyrir fjölmiðlafyrirtæki með tryggingagjaldinu eða öðru þess háttar eins og nú hafa komið fram hugmyndir um. Ég segi fyrir mitt leyti að mér finnst eins og við höfum ekki eytt nógu miklu púðri í að fara í gegnum það og finna út hvaða ókostir þar væru, ef einhverjir, áður en ráðist er í einhvers konar beint milligreiðslukerfi eins og hér er í rauninni verið að leggja til.