Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[20:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa beinu spurningu og svarið er einfalt: Það var ekki vilji hjá Sjálfstæðisflokknum til að taka á þessu máli. Það er einfaldlega þannig. Margoft var það rætt, þannig að það sé nú sagt.

Mig langar að spyrja hv. þingmann. Ég ætla ekki að hjakka í þessu fari með Sjálfstæðisflokkinn og Ríkisútvarpið en ætla hins vegar spyrja þingmanninn út í fréttir sem eru á samfélagsmiðlum um þetta Eurovision-dæmi allt saman sem nú stendur yfir. Þar hefur komið í fréttir að þulur Ríkisútvarpsins ákvað að nota tækifærið til að beita pólitískum áróðri í starfi sínu þar. Nú vil ég taka það fram að eins og hv. þingmaður veit og við höfum rætt í störfum okkar í utanríkismálanefnd erum við sammála, held ég, um það að í átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs beita Ísraelar Palestínumenn gríðarlegri hörku, allt of mikilli hörku, að mínu viti alla vega, þar sem risaherveldi er í raun að svara fyrir árásir á sig en með yfirgengilegum hætti. Finnst hv. þingmanni við hæfi að ríkisútvarp allra landsmanna, hið hlutlausa ríkisútvarp, taki afstöðu í því máli líkt og gert var í kvöld, að því er virðist samkvæmt fréttum fjölmiðla, þar sem þessi ágæti þulur gagnrýnir með beinum eða óbeinum hætti Ísraela og framlag þeirra í þessari keppni? Finnst þingmanninum eðlilegt að Ríkisútvarpið hafi farið fram með slíkum hætti?