151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[21:01]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur svarið. Ég verð að segja að nú hef ég ekki fylgst með samfélagsmiðlum í kvöld þannig að ég er alveg blönk þegar kemur að þessari spurningu frá hv. þingmanni. Ég sá aftur á móti fyrr í dag eitthvað á samfélagsmiðlum um að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson yrði kannski framlag okkar í Eurovision í ljósi þeirra leiðinda að hluti af liði okkar væri kominn í einhvers konar sóttkví. En eins og ég segi, virðulegur forseti, get ég því miður ekki brugðist við því sem hv. þingmaður segir við mig því að ég hef ekkert séð af þessu. Ég ítreka það bara, sem er auðvitað sýn mín, að við eigum að hafa óháða fréttamenn á Ríkisútvarpinu. Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs er auðvitað efni í sérstaka umræðu hér og mikilvægt að hún verði tekin og að hún verði tekin af fullum þunga og af fullri alvöru. Þar er auðvitað stóra málið, vopnahlé strax. Við getum ekki haldið áfram að vakna upp við þessar hryllilegu fréttir sem við fáum á hverjum morgni um gríðarlegt mannfall vegna árása þarna. Þar köllum við og eigum að kalla eftir vopnahléi strax. En ekki þykist ég geta leyst deiluna fyrir botni Miðjarðarhafs og þaðan af síður á 40 sekúndum.