151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

694. mál
[22:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hér reyndar til að lýsa yfir stuðningi við þetta mál frekar en til að fara í hefðbundið andsvar. Ég taldi ekki ástæðu til að fara í sérstaka ræðu um það. Ég vil fagna þessu máli þingmannanna tveggja og vonast til að það fái hraða og góða umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd og verði tekið til umræðu ásamt því máli sem var núna vísað aftur til nefndar, þ.e. hinu svokallaða fjölmiðlamáli eða styrkjamáli.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki í rauninni óhætt að ætlast til þess í sjálfu sér að Ríkisútvarpið mæti mögulegri tekjuskerðingu einfaldlega með því að draga saman seglin, en reiði sig á það að lagðir verði aukaskattar á íbúa landsins til að vega upp mögulegan tekjumissi. Önnur leið er mögulega þá að setja stofnunina á fjárlög þannig að henni séu í rauninni skammtaðir fjármunir í hverjum fjárlögum. Þá geta þingmenn tekist á um hvort það eigi að bæta þetta upp með þeim hætti eða einfaldlega að gera þá kröfu, sem er ekkert óeðlileg, að stofnunin bregðist við minnkandi tekjum með einhvers konar aðhaldi.

Mig langaði einnig að bæta við vangaveltu til hv. þingmanns og hún er að þetta er ekki eina málið þar sem hæstv. menntamálaráðherra er einhvern veginn að útdeila fjármunum en ekki að verja einkaaðilana. Hið sama má segja um peninga, að mig minnir 500 millj. kr., sem eiga að fara í námskeiðahald á vegum ríkisháskólanna meðan ekki fer króna, annað árið í röð, til einkaaðila sem sinna sams konar rekstri og eru í samkeppni við ríkisskólana. Þarf ekki líka að taka á þessu, hv. þingmaður?