151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

694. mál
[22:10]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ástæða þess að við leggjum til í frumvarpinu að þessi breyting eigi sér stað í skrefum er að gefa Ríkisútvarpinu svigrúm, stjórn Ríkisútvarpsins og stjórnendum, til þess að móta reksturinn að nýju. Það hlýtur auðvitað líka að einhverju leyti að koma í hlut löggjafans að hugsa lagalegan ramma um það. Það kann vel að vera að menn standi frammi fyrir því að þær tekjur sem Ríkisútvarpið hefur sannarlega af öllum Íslendingum, einstaklingum 16 ára og upp í sjötugt og öllum lögaðilum, dugi ekki fyrir þeirri starfsemi sem menn telja nauðsynlegt að haldið verði úti. Svo getum við endalaust deilt um það. Þá er það fjárveitingavaldið, löggjafinn hér, sem þarf að taka það til skoðunar og hefur þennan rúma tíma til þess um leið og það er hugsanlega hægt að móta nýja stefnu fyrir Ríkisútvarpið í heild sinni. Ég hef hins vegar hallast að því æ meira á undanförnum árum að það sé skynsamlegt eða kunni að vera skynsamleg rök fyrir því að Ríkisútvarpið fari á föst fjárlög, eins og var hér áður, að það sé fjárveiting frá fjárveitingavaldinu á hverju ári til að standa undir starfsemi Ríkisútvarpsins á grundvelli þess þjónustusamnings sem er í gildi hverju sinni. Við getum sótt fyrirmyndir til annarrar menningarstarfsemi hér á landi eins og Sinfóníuhljómsveitarinnar, Þjóðleikhússins o.s.frv. Þá er staða Ríkisútvarpsins með svipuðum hætti og þeirra stofnana.