151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

694. mál
[22:15]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Í greinargerð með þessu frumvarpi kemur einmitt fram að það er mat flutningsmanna að almennt hafi opinber samkeppnisrekstur aukist, ríkið hafi verið að færa sig upp á skaftið, stöðugt í samkeppni við einkaaðila. Við getum litið til heilbrigðiskerfisins en við getum líka litið til lítilla sjálfstæðra atvinnurekenda sem eru að reka sendibíla og flutningabíla og síðan er taprekstur ríkisfyrirtækisins sem ræðst inn á þeirra markað sendur til skattgreiðenda. Ég hef oftar en einu sinni og oftar en tvisvar vakið athygli á þessu. Ég las líka ágæta grein, og nú man ég þetta ekki nákvæmlega í augnablikinu, en þar var forráðamaður Promennt sem er einn af þeim einkaaðilum sem býður einmitt upp á nám, m.a. sumarnám, sem vakti athygli á því, í grein í Viðskiptablaðinu, ef ég man rétt, fyrir tveimur vikum, að það væri annað árið í röð verið að úthluta fjármunum til góðs málefnis, þ.e. að stuðla að menntun að sumri til, en það væri verið að ganga fram með þeim hætti að í rauninni væri verið að grafa undan einkaaðilum sem bjóða upp á sambærilegt nám og hygla ríkisrekstrinum. Ég hygg nú og vona og tel mig hafa eitthvað fyrir mér í því þegar ég segi að einhver mistök hafi átt sér stað. Það hlýtur að vera að ráðherra eða menntamálaráðuneytið endurskoði þessa afstöðu vegna þess að annað er ósanngjarnt, óeðlilegt og óheilbrigt.