151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

undirbúningur að stofnun alþjóðlegs björgunarskóla á Íslandi.

695. mál
[22:47]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Frú forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar sem fjallar um undirbúning að stofnun alþjóðlegs björgunarskóla á Íslandi. Þetta mál er nú flutt af þingmönnum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs en hefur áður verið flutt hér á þinginu í aðeins annarri mynd heldur en málið er nú. Tillagan hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra í samvinnu við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og dómsmálaráðherra að skipa starfshóp til að kanna grundvöll fyrir stofnun alþjóðlegs björgunarskóla á Íslandi, kosti þess og galla. Starfshópurinn skili niðurstöðu sinni til ráðherra eigi síðar en 1. mars 2022.

Með tillögunni er lagt til að skipaður verði starfshópur sem undirbúi stofnun alþjóðlegs björgunarskóla á Íslandi. Eðlilegt er að starfshópurinn skoði sérstaklega hvort efni séu til að reka slíkan skóla undir hatti GRÓ, þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu, sem starfar undir merkjum UNESCO.

Á Íslandi er mikil þekking á björgunarmálum, bæði hjá opinberum aðilum og félagasamtökum. Hér á landi eru aðstæður og náttúra sem finnst óvíða í heiminum og því ættu að vera kjöraðstæður til þess að stofna slíkan skóla hér. Íslenskt björgunarfólk hefur reynslu af björgun úr sjávarháska, er vant að takast á við foráttuveður á landi og sjó, snjóflóð, jarðskjálfta, björgun af jöklum, umfangsmiklar leitir á erfiðum landsvæðum o.s.frv. Þá hefur einnig skapast í landinu mikil þekking á viðbrögðum við eldgosum líkt og kom í ljós í tengslum við eldgosin í Eyjafjallajökli og í flóðum tengdum þeim vorið 2010 og sömuleiðis í viðbrögðum við gosi í Grímsvötnum og flóðum á Skeiðarársandi þá í kjölfarið. Þá hafa jarðhræringar á Reykjanesi undangengið ár og eldgos í Geldingadölum enn bætt í reynslubanka íslensks björgunarfólks og þannig mætti áfram telja. Af þeim sökum virðast hér vera kjöraðstæður fyrir ríki með veikar stoðir á þessu sviði til þess að læra af reynslu Íslendinga og öðlast þar með meiri þekkingu og færni við björgunarstörf.

Íslenskar björgunarsveitir hafa einnig tekið þátt í verkefnum erlendis og farið í útköll til hamfarasvæða og nægir þar að nefna framgöngu alþjóðabjörgunarsveitar Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sem er skammstafað ICE-SAR, við björgunarstörf á Haítí fyrir um áratug sem vakti athygli á alþjóðlegum vettvangi.

Hér á landi hafa verið fjórar námsstofnanir sem áður tilheyrðu Háskóla Sameinuðu þjóðanna en hafa nú verið fluttar undir GRÓ, þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, sem vistuð er í utanríkisráðuneytinu. Þessi breyting varð 1. janúar 2020 og skólarnir starfa nú undir merkjum UNESCO. Í þeim gefst fagfólki — og það er mikilvægt að undirstrika það, fagfólki, þetta er sem sagt ekki grunnnám — frá þróunarríkjum tækifæri til að stunda þjálfunarnám á sviðum þar sem Íslendingar hafa náð miklum árangri á undangengnum áratugum. Starfsemi skólanna hér innan lands breyttist ekki við þessa breytingu að öðru leyti en því að nú hefur GRÓ yfirstjórn og samræmingarhlutverk yfir öllum þessum skólum eða námsbrautum eða hvað við veljum að kalla þá.

Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna hefur starfað á Íslandi frá árinu 1979 innan Orkustofnunar. Á vefsíðu hans segir, með leyfi forseta: „Markmið Jarðhitaskólans er að aðstoða þróunarlönd, þar sem nýtanlegur jarðhiti finnst, við að byggja upp og efla hóp sérfræðinga í jarðhitafræðum, sem geta unnið á hinum ýmsu sérsviðum í rannsóknum á jarðhita og nýtingu hans.“

Nýlega var námið útvíkkað með því að bjóða bestu nemendunum upp á framhaldsnám til meistaragráðu í jarðhitavísindum eða jarðhitaverkfræði. Allmargir nemendur hafa þó þegar aflað sér meistaragráðu og sumir doktorsgráðu áður en þeir koma til náms í Jarðhitaskólanum. Umrædd útvíkkun var gerð í samvinnu við Háskóla Íslands árið 2000. Frá upphafi starfseminnar hafa samtals 647 einstaklingar frá 60 löndum stundað nám við skólann og komið víða að úr heiminum.

Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna hóf göngu sína hér árið 1998. Í upphafi sóttu mjög fáir nemendur um eða aðeins sex. Seinni árin hefur starfsemi skólans aukist verulega og núna eru fáeinir tugir nemenda sem sækja nám á hverju ári. Auk þess er skólinn farinn að bjóða upp á framhaldsnám eða nokkurs konar meistaranám sem getur tekið þá fjóra til fimm mánuði og jafnvel lengur. Skólinn er að mestu leyti fjármagnaður með hluta af framlagi Íslands til þróunarmála. Árið 2009 hóf göngu sína Jafnréttisskólinn, eða Gender Equality Training Programme á ensku. Hann er starfræktur á vegum Háskóla Íslands í samstarfi við utanríkisráðuneytið og í tengslum við Öndvegisklasa í jafnréttis- og margbreytileikarannsóknum. Jafnréttisskólinn varð hluti af neti skóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna hinn 9. maí 2013 en honum var komið á fót sem tilraunaverkefni utanríkisráðuneytisins og Háskóla Íslands í janúar 2009. Jafnréttisskóli HSÞ vinnur að því að veita sérfræðingum frá þróunarlöndum sem starfa að jafnréttismálum þjálfun á sérsviði sínu og gera þeim betur kleift að vinna að jafnri stöðu karla og kvenna í heimalöndum sínum. Alls hafa 53 nemendur frá fimm löndum útskrifast úr fimm mánaða náminu.

Landgræðsluskólinn varð formlega hluti af neti Háskóla Sameinuðu þjóðanna í febrúar árið 2010 þegar skrifað var undir samstarfssamning þar að lútandi. Skólinn er samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins, Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins. Markmið hans er að veita sérfræðingum frá þróunarlöndum, sem glíma við jarðvegseyðingu, eyðimerkurmyndun og neikvæð áhrif loftslagsbreytinga, þjálfun í landgræðslu og sjálfbærri nýtingu lands. Frá því að Landgræðsluskólinn hóf störf sem tilraunaverkefni árið 2007 hafa meira en 100 manns frá tólf löndum útskrifast frá skólanum.

Árið 2012 fór fram sameiginleg björgunaræfing við austurströnd Grænlands á grundvelli samnings um leit og björgun frá 2011 og tóku íslenskir viðbragðsaðilar þátt í henni. Samkvæmt skýrslu utanríkisráðherra er nú unnið að því að þróa samstarf við önnur ríki um öryggissamvinnu í nágrenni Íslands. Stofnun alþjóðlegs björgunarskóla gæti orðið mikilvægt innlegg í slíkt samstarf og styrkt stöðu Íslands innan Norðurskautsráðsins enn frekar. Mikilvægi Norðurslóða er sívaxandi og hlutverk innlendra björgunaraðila mun vafalítið fara vaxandi í því tilliti. Væntingar um að Ísland taki þátt í alþjóðlegu samstarfi á svæðinu með tilliti til björgunarmála hafa þegar risið.

Við nám í alþjóðlegum björgunarskóla mætti leggja áherslu á verklega og bóklega þætti, bæði vettvangsvinnu, þátttöku í raunverulegum aðgerðum á vettvangi, fyrirlestra, verkefnaskil og áætlunargerð. Þá væri einnig hægt að gera ráð fyrir rannsóknar- og þróunarvinnu á sviði björgunarmála.

Við undirbúning og skipulagningu slíks skóla væri rétt að sækjast eftir samvinnu við stofnanir eins og Landhelgisgæsluna, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Veðurstofuna, sjúkrahúsin og háskólastofnanir auk Landsbjargar og sjómannasamtakanna. Síðast en ekki síst væri með stofnun alþjóðlegs björgunarskóla á Íslandi um að ræða uppbyggilegt framtak til þess að bæta ímynd lands og þjóðar á alþjóðavettvangi og þarft framlag til alþjóðasamstarfs.

Með stofnun alþjóðlegs björgunarskóla myndi störfum væntanlega fjölga, a.m.k. í þessum geira. Bæði yrði um að ræða störf tengd kennslu og umsýslu námsins, en einnig störf tengd rekstri tækjabúnaðar, t.d. báta og björgunarþyrlna. Eðlilegt væri að leita fanga hjá frjálsum félagasamtökum eins og Landsbjörg með rekstur skólans en bakhjarlar hans í stjórnkerfinu gætu verið dómsmálaráðuneytið eða utanríkisráðuneytið.

Frú forseti. Ætli það séu ekki 15, 16 ár síðan sá sem hér stendur vakti fyrst máls á þessu máli í blaðagrein, í Morgunblaðinu held ég að hafi verið frekar en einhverju öðru blaði. Þetta mál hefur svo sem komið aftur og aftur upp í umræðunni síðan þá og ég vissulega fylgt því nokkrum sinnum eftir hér á þingi með flutningi tillagna. Nú um stundir er mikið talað um þessi mál og það er mikið talað um mikilvægi Íslands í Norðurhöfum og mikilvægi Íslands sem nokkurs konar miðstöðvar fyrir norðurslóðastarf og að Ísland geti gegnt þar lykilhlutverki. Því er vel til þess vinnandi að skoða með opnum huga með hvaða hætti væri hægt að koma svona verkefni í kring. Innviðirnir eru í rauninni allir til staðar á Íslandi og þekkingin svo sannarlega. Það gæti verið mjög mikil lyftistöng fyrir Ísland sem kannski ekki stærsta ríkisins en eins af mikilvægu ríkjunum á norðurslóðum að bjóða upp á slíka menntun sem hér er talað um. Jafnhliða því að gera gagn út á við væri þetta líka ákveðinn stuðningur og styrking við þá innviði sem við þurfum sannarlega hér á Íslandi vegna okkar eigin innviða. Í því tilliti gæti skóli eins og þessi ekki bara gert gagn út á við heldur styrkt íslenska björgunaraðila og eflt íslenskar björgunarsveitir enn frekar frá því sem nú er.

Ég vona að þessi tillaga fái umfjöllun væntanlega í allsherjar- og menntamálanefnd eða atvinnuveganefnd. (Forseti (BHar): Hér stendur utanríkismálanefnd.) Í utanríkismálanefnd, það kann að vera, það væru ýmsar nefndir sem kæmu til greina. En sannarlega er hér um að ræða verkefni sem þingið ætti að skoða með opnum huga og halda áfram. Þess má geta að hæstv. utanríkisráðherra hefur einmitt nefnt að undanförnu stöðu Íslands og Íslendinga á þessum vettvangi í því tilliti að við gætum þarna gegnt lykilhlutverki og þessi tillaga kann sannarlega að verða innleidd í slíka umræðu.