151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

ný velferðarstefna fyrir aldraða.

720. mál
[23:18]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er auðvitað tóm vitleysa hjá hv. þingmanni að það hafi ekkert breyst í málefnum eldri borgara í 30 ár. Tökum bara eitt dæmi, nýsköpunarverkefni um sveigjanlega dagþjálfun fyrir aldraða á Akureyri, hvort þingmaðurinn þekki það. Legg ég þá inn aðra spurningu, því að þingmaðurinn svaraði ekki fyrri spurningunni um hvort þessi umræða hjá Samfylkingunni núna taki mið af því sem starfshópurinn er þó að gera núna, þótt margir starfshópar hafi verið stofnaðir um málefni eldri borgara. Ég ætla að fá að lesa upp úr grein vegna þess að þingmaðurinn sagði að hér hefði ekkert breyst í málefnum eldri borgara, sem er auðvitað bara vitleysa og það veit þingmaðurinn sjálfur. Með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi hafa margfalt fleiri einstaklingar nýtt sér þjónustuna en áður var mögulegt og einnig hafa þeir nýtt hana í lengri og samfelldari tíma og í samræmi við þarfir hvers og eins. Áður voru fjármunir nýttir til „staðlaðs“ úrræðis með sólarhringsdvöl í 2–8 vikur í senn, en er nú úrræði sem er einstaklingsmiðað og aðgengilegt alla daga ársins. Í öðru lagi eru um 60% þeirra sem nota nýja úrræðið einstaklingar sem eru með staðfest mat um þörf fyrir dvöl á hjúkrunarheimili, en vildu og hafa getað búið heima með þeirri þjónustu sem sveigjanlega dagþjálfunin veitir. Reynslan sýnir að úrræðið dregur úr eftirspurn eftir hjúkrunarplássum og dvalartíma þar. Í þriðja lagi sýnir áfangamatið áhugaverðar niðurstöður um fjölbreytileika og áhrif úrræðisins, helstu viðfangsefni og viðhorf og væntingar notenda og ættingja þeirra, svo nokkuð sé nefnt.“

Þetta skrifar Halldór S. Guðmundsson á Akureyri fyrir örfáum vikum síðan. Það er því tóm vitleysa hjá þingmanninum að hér hafi ekkert breyst í málefnum eldri borgara í 30 ár. Spyr ég því aftur hvort þessar hugmyndir Samfylkingarinnar taki eitthvert mið af því sem er að gerast í dag, en séu ekki í einhverri einangraðri búblu og þær svo boðaðar hér á Alþingi.