151. löggjafarþing — 97. fundur,  18. maí 2021.

ný velferðarstefna fyrir aldraða.

720. mál
[23:22]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir að flytja þessa tillögu en kannski miklu fremur fyrir þá elju sem þingmaðurinn hefur sýnt í þessum málaflokki undangengin misseri. Mér er kunnugt um og þekki á eigin skinni að hv. þingmaður hefur eytt drjúgum hluta af starfsævi sinni á þessum vettvangi og þekkir því málaflokkinn býsna vel. Það er svo sem ekkert leyndarmál, frú forseti, að ég og hv. þingmaður höfum átt mörg samtölin um málaflokkinn í gegnum tíðina og ég hef verið svo heppinn að fá að vinna með hv. þingmanni á þessum vettvangi áður.

Það er rétt sem kom fram í andsvörum að í sjálfu sér hefur meginstefnan í þessum málaflokki ekki breyst. Ég er einn þeirra sem hafa ítrekað haldið því fram og sagt í gegnum tíðina að við þurfum einhvers konar heildaruppstokkun, einhvers konar algjörlega nýja hugsun. Vegna þess að það þarf ekki, frú forseti, að hugsa sig lengi um, þegar maður horfir á íbúaþróun og mannfjöldaþróun og spár 10, 15, 20 ár fram í tímann, til að sjá að ef við ætlum að halda áfram í nákvæmlega sama fyrirkomulaginu, nákvæmlega sama módeli öldrunarþjónustu fyrir þennan verðandi og stækkandi hóp eldri borgara, munum við eftir svona 15–20 ár í sama módeli kosta til þess sennilega einhvers staðar norðan við 100 milljarða á ári ef við höldum bara í hjúkrunarheimilaþjónustuna og ef við höldum áfram á sömu braut. Það er í fyrsta lagi ekki ásættanlegt fyrir samfélagið og í öðru lagi alls ekki ásættanlegt fyrir þjónustunotendurna og kannski er mikilvægast af öllu að hafa það í huga. Allt of lengi hefur þjónusta við eldra fólk, og sérstaklega þá þessi þjónusta sem hefur oft verið kölluð stofnanaþjónusta, verið að mestu leyti hugsuð á forsendum þjónustuveitandans eða þeirra sem greiða fyrir þjónustuna miklu fremur en á forsendum þeirra sem nota hana. Þessu þurfum við að breyta og þarna er ég algjörlega sammála hv. flutningsmanni.

Við þurfum að sjá í miklu ríkari mæli það sem hefur verið kallað á íslensku þjónusta eftir þörfum. Það hefur verið kallað á enskri tungu „on demand“-þjónusta, með leyfi forseta, þ.e. að þeir sem þurfa þjónustu geti kallað eftir henni þegar þeir þurfa á henni að halda, kannski ekki með nokkurra mínútu fyrirvara en þó þannig að þeir geti að einhverju leyti upplifað sjálfa sig vera í bílstjórasætinu þegar varðar það að sækjast eftir þjónustu og þiggja hana. Ég hef talið og tel enn að ein af forsendum þess að þetta sé hægt með góðu móti og að það verði með góðu móti hægt að breyta þjónustumódelum sé að stjórnunin á þjónustunni verði á einni hendi, að ekki verði haldið áfram á þeirri braut að vera með skýr skil á milli þessara tveggja meginþjónustuveitenda sem í dag eru ríki og sveitarfélög, þ.e. að þau beri ábyrgð á sitt hvorum þjónustuþættinum og geti þannig í sífellu kastað á milli sín boltanum um það hver á að bera kostnaðinn af hverju. Það gengur ekki og það er svo sannarlega ekki þjónustunotendum til hagsbóta að halda áfram á þeirri braut.

Sem betur fer er aðeins farið að örla á nýrri hugsun í málaflokknum. Farið er að velta fyrir sér: Eigum við kannski frekar að huga meira að dagþjónustu? Eigum við að huga meira að því að þjónustan komi heim til fólks? Bara á allra síðustu árum hafa til að mynda verið tilraunaverkefni í því að setja upp sérstök verkefni fyrir allra veikustu einstaklingana í heimahúsum, þ.e. að bjóða upp á þjónustu þar til að fyrirbyggja ótímabærar spítalainnlagnir og fleira þess háttar. Þessi tilraunaverkefni hafa gefist vel en í kjölfar þeirra hefur hins vegar ekki verið tekin ákvörðun um að breyta þjónustumódelunum og halda áfram á sömu braut. Og það er kannski þar sem hnífurinn stendur í kúnni. Þegar á hefur reynt að taka ákvarðanir um að breyta eða gera ákveðnar breytingar á þjónustumódelunum hafa stjórnendur og stjórnmálamenn úr öllum stjórnmálaflokkum — ég held að ekki sé hægt að halda því fram með neinni sanngirni að það hafi káfað upp á einn flokk frekar en annan að standa sig ekki í stykkinu þegar kemur að breytingum í þessu — einhvern veginn heykst á því eða fest í viðjum kjörtímabila og ekki haft nægilega víða eða öfluga framtíðarsýn.

Hv. þingmaður og þingmenn sem hér hafa talað í kvöld nefndu þá vinnu sem Halldór Guðmundsson er nú í á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Það er spennandi að sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu og hvort þar komi tillögur sem leiða okkur inn á nýjar brautir. Sannarlega væri vel af stað farið ef það væri. Við skulum ekki gleyma því að til þess að svo megi verða þá þarf ekki bara að vera vilji hjá einhverjum einum stjórnmálaflokki eða einhverjum einum hagsmunasamtökum, það þarf að vera vilji hjá öllu samfélaginu vegna þess að þessi mál varða ekki bara einhverja tiltekna klasa í samfélaginu, þeir varða samfélagið allt. Við snúum þessum málaflokki ekki við á punktinum öðruvísi en að það verði einhvers konar samstillt átak og við hreinlega komumst upp úr þeim hjólförum að velta í sífellu fyrir okkur hvort þetta séu málefni einhvers tiltekins flokks eða að aðgerðaleysi sé einhverjum tilteknum flokki að kenna o.s.frv. Það held ég að sé ekki.

Við þurfum í þessum verkefnum líka að muna að aðstæður geta verið afar mismunandi eftir því hvar á landinu maður er. Ég leyfi mér til að mynda að fullyrða að í uppsveitum Borgarfjarðar, sem eru í kjördæmi hv. þingmanns, kann að vera snúnara verkefni að bjóða upp á dagþjálfun fyrir stóran hóp eldra fólks, sérstaklega ef dagþjálfunin á til að mynda að vera í Borgarnesi. Það kann að vera snúið. Ef menn hins vegar leyfa sér í sífellu að hugsa að það sé ekki hægt þá munum við aldrei gera neitt nýtt. Ef við trúum því alltaf að verkefnin sem við okkur blasa séu þess eðlis að við getum ekki leyst þau getum við aldrei leyst þau. Betri nálgun er að hugsa: Hér er verkefni. Við þurfum að finna lausnir. Við verðum að muna að það eru jafnt réttindi þeirra sem búa í dreifðari byggðum eins og þeirra sem búa hér á höfuðborgarsvæðinu að njóta boðlegrar þjónustu þegar þau komast á efri ár. Ég vil meina að það sé hægt og ég vil meina að ódýrara sé að nota þá nálgun heldur en nálgunina sem hv. þm. Guðjón Brjánsson nefndi áðan, að byggja í sífellu ný og ný hjúkrunarheimili. Þó að það sé sannarlega nauðsynlegt getur það ekki verið það módel sem við viljum búa við fram eftir þessari öld.

Ég hlakka til að takast á við þetta mál í hv. velferðarnefnd og trúi því að það eitt að flytja svona mál, það eitt að taka sér stöðu með þessum hópi fólks, með þessum þjónustuþáttum, skipti máli. Og það er full ástæða til að þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir þá elju.