151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

störf þingsins.

[13:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Eins og við vitum þá hækkaði Seðlabankinn stýrivexti um 0,25 punkta núna í morgun. Það var nokkuð fyrirsjáanlegt. En á meðan erum við með ríkisstjórn í algerri afneitun þegar kemur að krónuhagkerfi okkar. Við í Viðreisn erum búin að benda á þessa hættu í langan tíma, en vart fengið áheyrn hjá ríkisstjórninni sem ekki hefur viljað viðurkenna þennan vanda. Ekki síst er það áhyggjuefni þegar við horfum til lengri tíma. Kerfisvandinn með krónuna er einfaldlega sá að verðbólgan hefur hækkað það mikið á meðan hagkerfið sjálft er á niðurleið. Þversögnin í krónuhagkerfinu er gríðarleg. Við Íslendingar einir þjóða höfum margfaldað verðbólguna hér á meðan aðrar þjóðir, sem lent hafa í sama áfalli, standa ekki frammi fyrir sama vanda. Við upplifum atvinnuleysi sem aldrei fyrr á meðan aðrar þjóðir standa ekki frammi fyrir sama vanda hlutfallslega.

En af því að verðbólga hefur hækkað og hagkerfið er á niðurleið þá þurfa vextir engu að síður samt að hækka að mati Seðlabankans áður en hagkerfið fer á fulla ferð aftur. Auðvitað auðveldar þetta ekki atvinnulífinu okkar, sem við þurfum svo sannarlega að styðja við, að hlaupa hraðar. Þetta setur fjárhag heimila í uppnám. Hættan er að vaxtahækkanir verði svo enn meiri þegar fram í sækir. Þannig að öll þessi húsnæðiskaup, sem ekki síst fyrstu kaupendur hafa staðið í, hafa verið gríðarleg áhættutaka fyrir þá. Svo vekur þetta auðvitað upp nýjar spurningar um lánskjör ríkissjóðs. Hækkar þetta þá allt? Við vitum að boðuð er 50 milljarða skattahækkun með fjármálaáætluninni. Hvað þýðir þetta til viðbótar við skattahækkun fyrir fólk og fyrirtæki til lengri tíma? Virðulegi forseti. Þetta er birtingarmynd kerfisvanda sem taka verður á þegar langtímaplön verða lögð varðandi viðreisn efnahagslífsins og ríkissjóðs, nokkuð sem við verðum að fara að taka á. Við getum ekki leyft okkur að vera í þessari afneitun lengur. Við verðum að taka á þessu, ellegar munu á endanum bæði heimilin og fyrirtækin blæða.