151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

störf þingsins.

[13:10]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við lesum nú fréttir af íslenskri netverslun, eða netverslun með áfengi með íslensk tengsl, og átökum um hana. Ég ætla ekki að þykjast vita hvernig sú deila fer en staðan er sú að erlendir aðilar hafa auðvitað lengi stundað netverslun hér heima en innlendir ekki mátt. Vandræðagangurinn er bein afleiðing af því að dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa skilað auðu í þessu máli um langan tíma. Áður hafði að vísu verið lagt fram frumvarp sem jafnaði leikinn milli innlendra aðila og erlendra. Hér var frumvarp um breytingar á áfengislögum sem boðaði bæði netverslun og sölu úr brugghúsum en netverslunin, sem var auðvitað stóra skrefið í málinu, hefur síðan horfið af dagskrá. Þessu frelsismáli treystir Sjálfstæðisflokkurinn sér ekki til að tala fyrir lengur. Brugghúsavinkillinn, sem er fínn svo langt sem hann nær, er ekki stóra málið í þessu samhengi. Þungamiðja málsins, um heilbrigðara samkeppnisumhverfi og meira frelsi á markaði í þessum efnum, er horfin.

Þessi feimni við frelsi og heilbrigt samkeppnisumhverfi er reyndar ákveðið sterkt stef og áberandi hjá Sjálfstæðisflokknum sem talar oft á einn veg en starfar á annan. Auðvitað er það þannig að áfengi lýtur öðrum lögmálum en gilda um aðra vöru og aðra neysluvöru, það væri barnaskapur að viðurkenna það ekki. Það er auðvitað ástæða fyrir því að sérstakrar reglur hafa gilt um sölu áfengis og það er ástæða þess að ríkið, sem hagnast gríðarlega á sölunni, er um leið virkt í forvörnum gegn hættum vörunnar til verndar lýðheilsu. En þegar ríkið hefur tekið þá afstöðu að selja þessa vöru þá er ekki alveg hægt að líta fram hjá samkeppnislögmálunum og í pólitísku samhengi er heldur ekki hægt að tala eilíflega á einn veg um frelsismálin en standa aldrei með þeim þegar á reynir.