151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

störf þingsins.

[13:19]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Stefna Íslands er skýr, hafa ráðherrar ítrekað sagt undanfarna daga varðandi árásir Ísraelshers á Palestínu. En hvernig birtist hún í raun og veru? Lítum aðeins á alþjóðasviðið þar sem í yfirlýsingu Íslands á fundi öryggisráðsins í vikunni sagði, með leyfi forseta:

„Ísland fordæmir harðlega allar árásir á almenna borgara. Eldflaugaárásir frá Gaza á almenna borgara í Ísrael eru aldrei réttlætanlegar og þótt við viðurkennum rétt Ísraels til sjálfsvarnar þá verðum við að krefjast þess að gætt sé ýtrustu aðgátar og meðalhófs í valdbeitingu.“

Þarna er vissulega ofbeldi fordæmt almennum orðum. En hins vegar er Ísraelsher sýndur mikill skilningur og hann í raun bara beðinn að hemja sig aðeins. Hvað sem þetta er þá er þetta ekki skýr stefna um stuðning Íslands við palestínsku þjóðina. En hvað með hérna heima fyrir? Hvað með t.d. samstöðu með þeim einstaklingum sem hafa þurft að flýja átökin? Undanfarna daga hafa hellst yfir okkur fréttir af umsækjendum um alþjóðlega vernd sem íslensk stjórnvöld ætla að endursenda til Grikklands. Í þeim hópi er m.a. fólk sem fyrst flýði ástandið í Gaza, fékk hæli á Grikklandi en þurfti aftur að leggja á flótta úr ónýtu verndarkerfi Grikklands. Þessu fólki ætla íslensk stjórnvöld ekki einu sinni að sýna þá virðingu að taka mál þeirra til efnislegrar meðferðar. Hvernig birtist stefna Íslands gagnvart þessu fólki? Nú eru tíu umsækjendur um alþjóðlega vernd komnir á götuna eftir að Útlendingastofnun henti þeim út og svipti þá framfærslu. Skítt með mannúð og mannréttindi. Það á að svelta þetta flóttafólk til hlýðni þannig að hægt sé að pína það aftur í óboðlegar aðstæður í gríska hæliskerfinu. Hér er stefna Íslands: Út á guð og gaddinn.

Herra forseti. Það dugar ekki að fordæma ofbeldi almennum orðum en fara eins og köttur í kringum heitan grautinn við að gera eitthvað í alvöru.