151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

störf þingsins.

[13:21]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Það gerðust ákveðin tíðindi á fundi hv. utanríkismálanefndar í morgun. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Miðflokksins í utanríkismálanefnd bókuðu eftirfarandi á fundi nefndarinnar, með leyfi forseta:

„Þingmenn utanríkismálanefndar fordæma hvers kyns árásir á óbreytta borgara í átökum undanfarna daga á svæðum Ísraels og Palestínumanna. Þingmenn leggja áherslu á að alþjóðalög og mannréttindi séu virt í hvívetna og að öryggi almennings sé tryggt. Ólíðandi er að loftárásum sé beitt gegn saklausum borgurum þar sem fjöldi barna hefur látið lífið í verstu stríðsátökum á svæðinu síðan 2014. Að sama skapi harma þingmennirnir að eldflaugaárásum sé beint gegn óbreyttum borgurum. Alþjóðasamfélagið verður að gefa skýr skilaboð um að leggja eigi niður vopn strax og að friðsamlegar lausnir í deilunni milli Ísraels og Palestínu séu eina lausnin. Ísland á í sérstöku sambandi við bæði Palestínu og Ísrael. Ísland var fyrsta vestræna ríkið til að viðurkenna sjálfstæði og fullveldi Palestínu með samhljóða samþykkt Alþingis 2011, en Ísland lék einnig sérstakt hlutverk þegar Ísrael varð fullvalda ríki árið 1948. Þingmennirnir hvetja til þess að utanríkisráðherrar Norðurlandanna beiti sér sameiginlega á alþjóðlegum vettvangi í kröfunni um tafarlaust vopnahlé og að ríkisstjórn Íslands beiti sér fyrir að neyðaraðstoð og hjálpargögn komist til nauðstaddra á svæðinu.“

Það vekur athygli, herra forseti, að þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Framsóknarflokksins treystu sér ekki til að vera með á þessari bókun sem lögð var fram og samþykkt af þingmönnum hinna flokkanna. Það eru gríðarleg vonbrigði að sjá þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem hefur tekið harða og einarða afstöðu með málstað Palestínumanna frá stofnun, og Framsóknarflokksins, sem hefur skýra sögu að segja þegar tekin hefur verið afstaða til sjálfstæðisbaráttu Palestínumanna, og nefni ég þar Steingrím Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formann Framsóknarflokksins. Þetta eru vonbrigði. (Forseti hringir.) Það er með ólíkindum að þingmenn þessara flokka hafi ekki treyst sér til þess að taka einarða afstöðu með mannréttindum (Forseti hringir.) en hafi lagst undir hæl Sjálfstæðismanna þegar kemur að því að veigra sér við því einfalda hlutverki að bóka á fundi utanríkismálanefndar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)