151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

störf þingsins.

[13:26]
Horfa

María Hjálmarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Getum við einu sinni hér á Íslandi horft til framtíðar? Getum við hætt að bregðast við og hætt að láta hagsmunaöfl stýra ferðinni? Getum við farið að nálgast atvinnuuppbyggingu út frá sjálfbærnimarkmiðum þar sem tillit er tekið til samfélagslegrar sjálfbærni, umhverfis og efnahags? Getum við farið að virða sjálfsákvörðunarrétt íbúa og skapa sátt um uppbyggingu á nýjum atvinnuvegum um allt land? Já, herra forseti, ég er að tala um uppbyggingu í tengslum við fiskeldi. Samkvæmt nýrri skýrslu um stöðu og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi er tekið fram að gert sé ráð fyrir að verðmæti í fiskeldi fimmfaldist og verði 125 milljarðar kr. árið 2030. Á Vestfjörðum er fiskeldi helsti vaxtarbroddur atvinnulífsins. Störfum hefur fjölgað hratt auk þess sem ný störf hafa orðið til tengd fiskeldinu. Á næstu árum er gert ráð fyrir að allt að 20% starfa fyrir vestan tengist með beinum hætti fiskeldi. Sveitarfélögin á Vestfjörðum vinna nú að samfélagssáttmála um fiskeldið sem verður kynntur á næstu vikum. Fjarðabyggð hefur myndað stefnu sem er til fyrirmyndar en til að hún og samfélagssáttmálinn á Vestfjörðum virki vel þarf Alþingi að samþykkja lög og reglugerðir sem vinna með hagsmunum sveitarfélaga og ekki síst íbúa. Það er afar mikilvægt að það sé tryggt að skipulagsvald sé á borði sveitarfélaganna og að sveitarfélögin vinni vel með íbúum. Það eru til alls konar stefnur þar sem fiskeldi kemur fyrir en engin heildarstefna er til varðandi fiskeldi sem framtíðaratvinnugrein.

Herra forseti. Við verðum að vera með almennilega stefnumótun um hvernig atvinnugreinin á að vaxa. Hættum að bregðast við og lítum á alla hagsmuni og horfum til framtíðar.