151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

störf þingsins.

[13:30]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs er hryllingur og því þarf að linna strax. Menn, konur og börn, óbreyttir borgarar, láta lífið á degi hverjum. Þetta er óásættanlegt. Alþjóðasamfélagið kallar eftir vopnahléi og við hér á Íslandi tökum að sjálfsögðu undir það ákall. Þessum hryllingi verður að linna. Deilur Ísraela og Palestínumanna verða ekki leystar með vopnum. Þar er leikurinn ójafn. Vopnuð átök eru aldrei til þess fallin að leysa neinn vanda. Nauðsynlegt er að semja um vopnahlé strax. Alþjóðalög þarf að virða og mannréttindi á að virða.

Hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra hafa nýtt samtöl sín við utanríkisráðherra Bandaríkjanna og annarra ríkja, sem hér dvelja nú á fundi Norðurskautsráðsins, til að ítreka þessi skilaboð. Alþjóðasamfélagið verður að gefa skýr skilaboð um að leggja eigi niður vopn strax og friðsamlegar lausnir í deilunni milli Ísraels og Palestínu eru eina lausnin. Við höfum fordæmt landtöku Ísraelsmanna. Hún er ólögleg.

Framtíðarlausnin byggir á tveggja stoða lausn þar sem bæði Ísrael og Palestína lýsa yfir áhuga á að vinna að. Flestar bandalagsþjóðir okkar hafa tekið undir þá framtíðarsýn og það hefur verið stefna Íslands í málinu. Það virðist vera eina lausnin þar sem eygir von um að friður geti ríkt á svæðinu til framtíðar. Fleiri börn mega ekki láta lífið í þessum átökum. Vopnahlé strax.