151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F):

Hæstv. forseti. Bráðatilfellum hjá BUGL hefur fjölgað um 30–40% síðastliðin ár. Fleiri átröskunartilfelli hafa komið upp og auk þess mjög alvarleg neteineltismál. Við sem setjum stefnuna, kjörnir fulltrúar á Alþingi og í sveitarstjórnum, þurfum og verðum að spyrja okkur hvers vegna þessi þróun hefur orðið. Haft var eftir Birni Hjálmarssyni, sérfræðingi á BUGL, að mun fleiri börn og ungmenni hefðu komið inn á deildina á þessu ári en á sama tíma í fyrra. Biðlistar lengjast, bæði í Reykjavík og á barnadeild Sjúkrahússins á Akureyri. Björn Hjálmarsson segir í viðtali við Vísi að hugsanlega séum við að fá afleiðingar bankahrunsins í hausinn eða að sú einangrun og skert skólahald sem var í Covid hafi þessi áhrif. Það segir okkur hversu mikilvægir skólarnir okkar eru. Svo bætir Björn við að mögulega hafi aukin skjánotkun barna og ungmenna þessi áhrif. Þrátt fyrir að við greinum skjáfíkn í greiningarkerfunum okkar vil ég taka undir ákall Björns, það vantar að setja skjánotkun barna og ungmenna inn í lýðheilsurannsóknir og lýðheilsuvísa. Ég vil skora á landlæknisembættið að bregðast við þessu ákalli.

Ég fagna þess vegna vinnu barna- og félagsmálaráðherra um endurskoðun málefna varðandi börn og ungmenni, bæði með nauðsynlegum kerfisbreytingum og auknu fjármagni. Við erum að fást við fíkn, skjáfíkn. Við sækjumst eftir viðurkenningu, samþykki og að tilheyra. Hvernig eigum við að aðstoða börnin okkar og ungmenni, sem þrá jafn mikið og við fullorðna fólkið, eða meira, að fá alla þá viðurkenningu sem felst í færslum og lækum? Þurfa þau allt þetta áreiti, eins og í nýjasta stigaleiknum í sumar þar sem maður fær 2 stig fyrir vinabeiðni, 5 stig fyrir að senda „flex“-mynd — það er nú ekki líklegt hér — 10 stig fyrir fyrirspurn á Snapchat og Instagram o.s.frv., allt að 40 stig, og svo á maður að deila þessu. Stjórnmálaflokkarnir kortleggja fólk sem má kjósa, en hverjir eru það sem kortleggja börnin okkar?