151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

um fundarstjórn.

[13:37]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Forseti. Undir dagskrárliðnum störf þingsins sem hér var að ljúka vék hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir að bókun sem var gerð í hv. utanríkismálanefnd af nokkrum nefndarmönnum en hv. þingmaður lét að því liggja að efnisleg afstaða sumra nefndarmanna til þess ágæta texta sem hún fór hér yfir væri slík að þeir, eins og hún orðaði það, treystu sér ekki til að vera með á þessari bókun. Þarna finnst mér ómaklega vegið að nefndarmönnum í hv. utanríkismálanefnd og vil nefna það hér að tilgangur bókana fastanefnda Alþingis er að bóka um afstöðu manna til afgreiðslu tiltekinna mála, fyrirvara sem þingmenn hafa að öðru leyti. Að öðru leyti taka þingmenn afstöðu til mála, hvers eðlis sem þau eru, með afstöðu til þingmála hér í þingsal en ekki með bókunum af þessu tagi. Það er ómaklega, finnst mér, vegið, m.a. að hæstv. ríkisstjórn, þegar látið er að því liggja að þingmenn stjórnarflokkanna treysti sér ekki til að taka þátt í bókunum sem þessum.