Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

um fundarstjórn.

[13:41]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti ætlar ekki að blanda sér í ummæli þingmanna um hvað dvelji skýrslugerð en vill taka fram að hann þarf a.m.k. ekki að sitja undir frýjunarorðum í þessu máli því að eins og skýrslubeiðandi vel veit hefur forseti beitt sér í því og í samráði við skýrslubeiðanda, til þess að greiða götu þess að skýrslunni mætti svara fljótt og vel, að afmarka betur efni skýrslunnar og það tímabil sem hún taki til. Í því bréfi sem forseti af því tilefni sendi upp í ráðuneyti var sérstaklega tekið fram að vonast væri til þess að með þessu, með því að afmarka betur efni skýrslunnar og tíma, yrði hægt að svara skýrslunni fljótt og vel og skýrara var varla hægt að taka til orða. Þessu vill forseti bara halda til haga sjálfs síns vegna en að öðru leyti mega menn ræða þetta eins og þeir vilja, upp á hvern einasta dag mín vegna.