151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

starfsemi Samkeppniseftirlitsins.

798. mál
[13:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þetta er skýrslubeiðni frá Sjálfstæðisflokknum, Miðflokknum og Framsóknarflokknum sem eru að sameinast um hana og það er ekkert að því. En auðvitað verð ég að viðurkenna að ég hef ákveðinn fyrirvara þegar kemur að málefnum neytenda og Samkeppniseftirlitsins, að þessir flokkar hafi þá hagsmuni í huga. En gott og vel, ég vil taka undir mjög margt sem kemur þarna fram, að það eigi að athuga samrunareglurnar, leiðsagnarhlutverk Samkeppniseftirlitsins o.fl. og málsmeðferðartímann. Það skýtur því svolítið skökku við að á sama tíma og þessi stofnun sætir allt að því fjársvelti sé verið að krefjast hraðari málsmeðferðartíma og því hvet ég skýrslubeiðendur til að skoða það atriði sérstaklega. Ég ætla að segja já við þessari beiðni um skýrslu af því að ég tel það við hæfi.

Hitt er annað að ég veit ekki til þess að neytendur eða Neytendasamtökin hafi verið að fetta fingur út í starfsemi Samkeppniseftirlitsins en grunnurinn að þessari skýrslubeiðni er óánægja fyrirtækjanna út af starfsemi Samkeppniseftirlitsins. Er eitthvað óeðlilegt að fyrirtækin séu að einhverju leyti óánægð eða ósátt við það hvernig Samkeppniseftirlitið starfar? (Forseti hringir.) Svo lengi sem leikreglurnar eru skýrar og Samkeppniseftirlitið fær heimildir og fjármagn til að fylgja málum sínum eftir verðum við að hlúa að því. (Forseti hringir.) Ég mun segja já við þessari skýrslubeiðni og mun fylgjast með því, virðulegi forseti, hvort þessi skýrslubeiðni verður afgreidd á undan skýrslubeiðni hv. þm. Hönnu Katrínar Friðriksson um eignarhald í sjávarútvegi.