151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

stefna Íslands í málefnum norðurslóða.

750. mál
[13:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka sérstaklega fyrir samstarfið. Um er að ræða þverpólitískt samstarf, samhljóða niðurstöðu þingflokka hér, og ég var fulltrúi Viðreisnar í vinnunni. Ég tel þetta skipta máli af því að leiðarljósin í þessari stefnu eru mikilvæg í þágu friðar og lýðræðis og þess að við tökum virkan þátt í þessu samstarfi því að rödd okkar Íslendinga skiptir máli.

Ég vil þakka formanni nefndarinnar, hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, sérstaklega fyrir öfluga og góða vinnu. En það skiptir máli, af því að nú eru þingkosningar, að þetta verði ekki bara eitthvert skúffuplagg sem verður lagt til hliðar þegar nýir flokkar sitja við stjórnvölinn, sem vonandi verður. Þetta er plagg sem ég vona að lifi fram yfir kosningar og inn í næstu fyrirsjáanlegu framtíð. Ég vil hins vegar geta þess að ég sat vorþing NATO nú um helgina og benti m.a. á, og ég vil ítreka það hér, að þrátt fyrir að við séum með skýra stefnu — með norðurslóðaráðið, með Arctic Council — fríar það okkur ekki, m.a. sem þátttakendur í NATO, frá því að NATO sinni líka vörnum á norðurslóðum á virkari hátt.