Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[14:03]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það er mjög mikilvægt að styðja við fjölmiðla. Eins og ég hef tekið fram áður í þessari pontu á fjölmiðlafrelsi og tjáningarfrelsi undir högg að sækja á Íslandi. Nýlega var birt skýrsla frá Blaðamönnum án landamæra þar sem Ísland hafði farið niður um sæti hvað varðaði fjölmiðlafrelsi hér á landi. Það er ótrúlega sorgleg staðreynd. Það hefur verið kallað eftir aðgerðum til að styðja við fjölmiðla í mörg ár, ekki bara á þessu kjörtímabili. Það var líka gert þegar dómar féllu hjá Mannréttindadómstóli Evrópu þar sem sagt var að brotið hefði verið gegn tjáningarfrelsi blaðamanna. Mér þykir leiðinlegt að þetta frumvarp taki ekki mark á þeim umsögnum sem hafa komið fram og þá sérstaklega frá minni fjölmiðlum sem hafa tekið skýrlega fram að þessir styrkir muni eiginlega ekki gagnast þeim að neinu leyti. Allur þessi peningur er að fara til stærstu fjölmiðlanna. Þess vegna get ég ekki gert annað en að sitja hjá. Ég vona að þetta muni lagast eitthvað í nefndinni nú í síðasta skiptið en þetta er bara allt of lítið skref til að tryggja fjölmiðlafrelsi á Íslandi.