151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[14:06]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Hér er verið að setja 400 milljónir í einkamiðla. Vandamálið sem ég sé er að langmest af peningunum er að fara til fjölmiðla sem eru viljandi í hallarekstri. Það er ósjálfbær rekstur þar undir sem eigendum þeirra fjölmiðla er alveg sama um af því að þeir hafa einfaldlega keypt fjölmiðla til að fjalla um sín sérhagsmunamál. Þessi hallarekstur er einfaldlega hluti af þeirra pólitík og hagsmunabaráttu. Með þessu frumvarpi og með þessari skiptingu á þessum 400 milljónum erum við einfaldlega að hjálpa þeim að greiða niður þann hallarekstur. Við erum ekki að stækka fjölmiðlaflóruna á Íslandi og búa til meiri og betri fréttir með þessum 400 milljónum. Við værum að gera það ef við værum að fara eftir tillögu minni hlutans þar sem þökin væru lægri. Um það snýst þetta mál núna: Á að borga niður hallarekstur þessara sérhagsmunaafla á fjölmiðlum eða eigum við í alvörunni að fara í betri fréttaflutning?