151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[14:07]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að skilgreina hvað er góð fréttamiðlun, okkur finnst kannski ekki öllum það sama. Við gerðum fyrirvara við þetta mál, ég og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir. Engu að síður teljum við, í ljósi þeirra umsagna sem bárust og orða þeirra gesta sem komu fyrir allsherjar- og menntamálanefnd, að skynsamlegra sé að fara þessa leið í þetta sinn. Undir er sólarlagsákvæði sem á að gefa tíma, eins og hér hefur komið fram, til að fara enn betur yfir það sem hér er undir og aðra þætti sem hafa verið nefndir, t.d. skattalegt umhverfi með tilkomu Facebook, Google og allra þessara miðla sem við þekkjum og eru að draga drjúgt til sín. Ég tel að þörf sé á því að gera þetta núna. Það er rétt að þetta hefur verið erfiður tími hjá fjórða valdinu eins og mörgum öðrum fyrirtækjum og ég tel það skyldu okkar að reyna að koma eitthvað til móts við þessa fjölmiðla til að þeir haldi uppi þeirri gagnrýni sem þeim ber að gera.

Ég vil líka minnast á það hér að ég get alveg (Forseti hringir.) séð annað fyrir mér í framtíðinni. Ég tek ekki undir það að við eigum ekkert að styðja við fjölmiðla. Það getur einmitt komið í ljós í þessari vinnu (Forseti hringir.) hvort minni fjölmiðlar, sem eru mjög æskilegir í hinum dreifðu byggðum, þurfa aðstoð til að þrífast.