Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

456. mál
[14:17]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tek undir með síðustu ræðumönnum. Auðvitað er ótækt að við séum hér ár eftir ár að stimpla framlengingu á tiltölulega einföldu máli en það er því miður raunin. Í fyrra, við sama tilefni, sendi hv. velferðarnefnd frá sér býsna harðorða yfirlýsingu í nefndaráliti þess máls þar sem skorað var á hæstv. félagsmálaráðherra að klára málið enda hafði hann þegar hann kynnti frumvarpið sagt að það yrði klárað síðasta sumar. Það reyndist ekki vera. Að þessu sinni ákváðum við að hafa gildistímann til 1. apríl á næsta ári en ekki til áramóta vegna þess að í rauninni hefur verið samningslaust frá áramótum og til dagsins í dag. Auðvitað styðjum við í Samfylkingunni framlenginguna en þetta ástand er algjörlega óboðlegt, bæði notendum þjónustunnar, notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar, og þeim starfsmönnum sem þar starfa.