151. löggjafarþing — 98. fundur,  19. maí 2021.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

456. mál
[14:20]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tek undir með þeim sem hér hafa talað um hversu vond þessi staða er. Ég tek undir með að túlka megi það sem uppgjöf að ár eftir ár skuli þurfa að fara þessa leið. Ég tek líka undir með varaformanni velferðarnefndar að ekki sé hægt fyrir nefndina að gera ekkert. Þess vegna mun þingflokkur Viðreisnar styðja málið. En mig langar að bæta í púkkið á þeim orðum sem viðhöfð eru. Mér finnst þetta virðingarleysi. Mér finnst þetta virðingarleysi við notendur þessarar mikilvægu og þessarar nauðsynlegu þjónustu og mér finnst þetta virðingarleysi við starfsfólkið sem veitir þessa mikilvægu og nauðsynlegu þjónustu. Þetta er ekki mjög flókið úrlausnarefni. Það þarf bara að hafa áhuga á því að leysa það. Það er skemmri skírn sem fer í gegnum þingið ár eftir ár og það er bara ekki boðlegt. Við þurfum að klára málið en við munum styðja við enn eina framlenginguna í þeirri trú að næsti ráðherra ráði við verkefnið.