151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

íþyngjandi regluverk.

[13:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Eins og ég gat um er þetta bara eitt örlítið dæmi enda ekki hægt að fara yfir margt á tveimur mínútum en þetta er hins vegar mál sem hæstv. dómsmálaráðherra nefndi sem eitt af málum ríkisstjórnarinnar til að fást við skipulagða glæpastarfsemi. En hjálpar þetta til við það? Ég held varla að þeir sem standa í slíku muni merkja við á einhverjum eyðublöðum að þeir stundi mansal eða séu í tengslum við skipulagða brotastarfsemi. En þetta bitnar á hinum sem eru að reyna að standa sig í samkeppni, og stundum í samkeppni við þá sem eru að svindla á kerfinu.

Og af því hæstv. ráðherra nefndi Stafrænt Ísland þá eru tvær hliðar á því máli, þó að við eigum að sjálfsögðu að reyna að nýta tæknina sem mest. Stafræna fyrirkomulagið gerir ríkinu líka kleift, kerfinu, að leggja nýjar og nýjar kvaðir á fólk því það er svo auðvelt að senda út hina og þessa lista sem menn þurfa svo að sitja sveittir við að uppfylla. Fyrirtækin mega flest hver ekki eingöngu notast við rafrænt bókhald þannig að þau þurfa að prenta allt dótið út hjá sér, svoleiðis að Stafrænt Ísland getur, ef misfarið er með það, gert ríkinu enn auðveldara að leggja nýjar og flóknar kvaðir á fyrirtæki.