151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

endursendingar hælisleitenda.

[13:25]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Ríkisstjórn Íslands, með dómsmálaráðuneytið og Útlendingastofnun í forsvari, heldur áfram að senda umsækjendur um alþjóðlega vernd aftur til Grikklands þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld ættu að vera fullmeðvituð um að hælisleitendakerfið í Grikklandi er fyrir löngu hrunið. Rauði krossinn sagði fyrir tveimur vikum, með leyfi forseta:

„Að gefnu tilefni ítrekar Rauði krossinn á Íslandi þá afstöðu sína að fyrirhugaðar endursendingar flóttafólks til Grikklands séu ekki forsvaranlegar við núverandi aðstæður.“

Öllu þessu hefur Rauði krossinn margsinnis komið á framfæri við Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála og dómsmálaráðherra, sem og í opinberri umræðu. Yfirmaður flóttamannahjálpar í Evrópu hjá UNICEF hefur einnig sagt, með leyfi forseta:

„Nú er líka tími til kominn að Evrópa sýni Grikklandi og Tyrklandi samstöðu. Þessar þjóðir hafa tekið móti mjög stórum hópum barna og fjölskyldna. En ekkert eitt ríki nær utan um þetta verkefni óstutt.“

Í gær birtust fréttir af því að vísa eigi tíu umsækjendum um alþjóðlega vernd úr landi. Þeir voru sviptir framfærslu og fengu hálftíma til að taka saman föggur sínar og fara úr húsi. Þeir voru settir á götuna á Íslandi í boði íslenskra stjórnvalda, tíu einstaklingar sem stjórnvöld telja að séu best geymdir við erfiðar og ómannúðlegar aðstæður í Grikklandi. Svo ég fái að vitna til orða þessara einstaklinga, með leyfi forseta:

„Við viljum frekar deyja á götunni á Íslandi en að fara aftur til Grikklands.“

Útlendingastofnun segir aðgerðirnar samræmast lögum og reglum og tekur einnig fram að þetta sé ekki án fordæma. Nei, það er ekki án fordæma að íslensk stjórnvöld gerist sek um að senda fólk í viðkvæmri stöðu ítrekað til Grikklands af því að þau eru búin að ákveða að nota einhverja túlkun á hugtakinu „öruggt ríki“ sér í hag.

Er ekki kominn tími til að stjórnvöld láti af ómannúðlegri endursendingastefnu sinni? Er ekki kominn tími til að hlusta á mannúðarsamtök og hætta endursendingum til Grikklands? Hvernig réttlætir ráðherra það að senda tíu einstaklinga á götuna? Hvernig getur það staðist lög og hvernig getur það talist mannúðlegt?