151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

efnahagsmál.

[13:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil biðja hv. þingmann um að hlusta þegar ég er að bregðast við spurningum og hlaupa ekki strax til þess að lýsa yfir svörum sem ég veitti kannski ekki. En ég ætla bara að vekja athygli á því hér, af því að fyrstu íbúðarkaupendur eru nefndir: Er það ekki jákvætt, eða hvað, að við höfum aldrei séð fleiri fyrstu íbúðarkaupendur en undanfarin misseri? Mér finnst það jákvætt. Frábær árangur að hjálpa fólki, með stöðugleika í efnahagsmálum, til að koma sér þaki yfir höfuðið. Aldrei fleira ungt fólk að festa sér húsnæði. Eigum við að hafa áhyggjur af verðbólgunni? Já, við eigum að hafa áhyggjur af því og við sjáum strax viðbrögð Seðlabankans með vaxtahækkunum til að hemja verðbólguna og við þurfum að leggjast á sömu sveif. Þau skilaboð sem við höfum til fasteignaeigenda í dag eru þessi: Við ætlum að gera allt sem við getum til að viðhalda áfram efnahagslegum stöðugleika og okkar skylda stendur til þess að hámarka möguleikana í sérhverri stöðu (Forseti hringir.) eins og hún er hverju sinni, hvort sem er í góðæri eða í heimsfaraldri. Við getum ekki lofað öllu og þóst geta gert galdra (Forseti hringir.) en við getum lofað þessu, að hámarka möguleikana og tækifærin.