151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[13:44]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Þorsteinn Sæmundsson) (M):

Herra forseti. Ég geri hér grein fyrir nefndaráliti 2. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011. Ég verð að byrja á því að mótmæla þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið varðandi þetta nefndarálit. Málið var tekið inn í nefnd milli 2. og 3. umr. að beiðni þess sem hér stendur og fljótlega kom í ljós á nefndarfundi að það var helber sýndarmennska vegna þess að enginn áhugi var á því, af hálfu meiri hluta nefndarinnar, að taka málið til efnislegrar meðferðar eins og hugur þess sem hér stendur og fleiri stóð til, þ.e. að taka til athugunar í leiðinni mál sem fram kom í gærkvöldi af hálfu hv. þingmanna Brynjars Níelssonar og Óla Björns Kárasonar.

Það stóð ekkert til, herra forseti, að vera neitt að fara yfir þetta og hvað þá heldur mál sem við vildum að yrði gaumgæft jafnhliða þessu, þ.e. mál okkar Miðflokksfólksins um að hluti af útvarpsgjaldi verði með þeim formerkjum að neytendur geti sjálfir valið hvert það rennur, að þeir geti valið fjölmiðla sem útvarpsgjaldið rennur þá til, svipað og gert er með sóknargjöld í dag. Að því slepptu kemur fram í nefndarálitinu að það eru tveir höfuðpólar í þessu máli sem vantar inn í frumvarpið sem hér hefur verið til umræðu undanfarið og til meðferðar í nefnd í vandræðalega langan tíma. Það er í fyrsta lagi sá langi skuggi sem RÚV kastar yfir þennan markað og í öðru lagi sú yfirburðastaða sem erlendar dreifiveitur hafa með því að ryksuga út auglýsingafé en greiða engin gjöld eða laun á Íslandi. Þessa tvo höfuðpóla vantar inn í frumvarpið. Það er með miklum ólíkindum að þetta skuli ekki hafa verið tekið með í reikninginn þegar frumvarpið var sett saman.

Eins og áður hefur komið fram í umræðu um þetta mál er það mál í meira lagi vandræðalegt fyrir ríkisstjórnina. Stór hluti stjórnarliða hefur engan áhuga á málinu og hafa sumir þeirra flutt mjög innblásnar ræður um það hvað þeir séu mikið á móti frumvarpinu. En síðan gerist það, eins og þar stendur, að þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur og þessir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ratað heim á básinn, hafa ratað á græna takkann þrátt fyrir að hafa haldið tilfinningaþrungnar ræður um að þetta mál sé slæmt, sem það er.

Þess vegna er það líka til vansa, herra forseti, að frumvörp um höfuðatriði eins og þetta skuli lögð fram í jafn miklum ágreiningi milli stjórnarflokkanna og raun ber vitni. Það kemur svo sem ekki alveg á óvart eins og ríkisstjórnin er samsett. Hún er náttúrlega innbyrðis sundurþykk vegna þess að sú breiða skírskotun sem hún átti að ná fram hefur einkum birst almenningi og þingmönnum í vandræðagangi vegna þess að menn hafa ekki getað komið sér saman um einföldustu mál og leita þá oft að auðveldu leiðinni út, sem er þá yfirleitt versta leiðin, sem er yfirleitt ófullkomnasta leiðin til þess að menn geti haldið áfram að starfa saman en hefur ekkert með málefnalega samstöðu eða málefnastöðu að gera, því miður.

Á það hefur verið bent í umræðunni, herra forseti, að markmið frumvarpsins, þ.e. að styrkja frjálsa og óháða fjölmiðlun, nást ekki með því lagi sem hér er í stað þess t.d. að laga skattumhverfið til eins og hér var drepið á áður. Auðvitað hefði það átt að vera fyrsta málið sem kæmi hér fram, út af stöðu fjölmiðla á markaði, að taka á skattamálum dreifiveitna. Illu heilli var það ekki gert og menn höfðu ekki þol eða þor til að gera það og leita þess vegna að þessari leið sem menn telja að sé sú einfaldasta en það er að ríkisvæða alla fjölmiðla á Íslandi. Með því að ríkisvæða alla fjölmiðla á Íslandi er ekki verið að sjá til þess að fjölmiðlar verði frjálsir og óháðir. Fjölmiðill sem er styrktur stórlega af ríkinu er ekki líklegur til að gagnrýna stjórnvöld hvers tíma á meðan á ríkisstuðningnum stendur, ríkisstuðningi sem oft á tíðum stendur undir drjúgum hluta af rekstrarkostnaði viðkomandi miðils.

Það hefur líka verið gagnrýnt að þær styrkupphæðir sem hér um ræðir hafa einkum leitað til öflugustu miðlanna en ekki þeirra minni, t.d. ekki þeirra sem hafa starfsstöðvar í hinum dreifðari byggðum landsins. Á móti kemur að félög eins og Blaðamannafélag Íslands hafa tekið undir það að rétt sé að styrkja einkum þá sem eru með fjölmennt starfslið umfram þá sem eru fáliðaðir og þar eru menn náttúrlega að hugsa um atvinnuöryggi sitt sem er góðra gjalda vert og ekkert við það að athuga þannig lagað.

En ég segi aftur: Þessi aðferð er ekki til þess líkleg að gera fjölmiðla á ríkisspenanum óháða og frjálsa, nema síður sé. Það hefur líka komið fram í umræðunni að engin grein hefur þróast jafn hratt og jafn mikið og dreifing upplýsinga. Hér áður og fyrr, meðan hér voru rekin allnokkur dagblöð, var dagblöðum eins og Þjóðviljanum lokað klukkan þrjú daginn áður en blaðið kom út, og það gerðist ekkert í heiminum eftir klukkan þrjú á Þjóðviljanum sem átti erindi í blaðið morguninn eftir. Mogginn hafði þetta aðeins öðruvísi. Það blað var opið fram yfir miðnætti til að nýjustu fréttir litu dagsins ljós morguninn eftir. En þetta var á þeim tíma, þessi viðhorf; sósíalistum var náttúrlega alveg sama hversu gamlar upplýsingar voru ef þær féllu að því sem átti að koma á framfæri.

Herra forseti. Á þeim tíma voru þessi gömlu flokksblöð með þeim formerkjum að maður gat gengið að því nokkurn veginn vísu hver málflutningurinn var á hverjum stað og maður þurfti ekkert að velkjast í vafa um það. Menn klæddu fréttir í þann búning sem heyrði til þeirra lífsskoðun og varð að lesa þessa miðla með þeim gleraugum. Þessi tími er liðinn að mestu, en þó er það þannig að það eimir eftir af því að við séum með stóra fjölmiðla sem eru síður en svo óháðir og eru síður en svo hlutlægir. Það versta er, herra forseti, að þar er fremst í flokki ríkisstofnun, fyrrverandi, sem nú er hlutafélag, sem hefur algjöra sérstöðu á þessum markaði; fyrirtæki sem hefur óheftan aðgang að auglýsingamarkaði, getur gengið í fjármuni ríkisins, kannski ekki óhindrað en lítt hindrað. Í því sambandi vil ég benda á að bara við síðustu fjárlagaafgreiðslu voru hér milli umræðna líklega tvær tillögur til að bæta hag Ríkisútvarpsins fjárhagslega. Ég man ekki eftir úr þeirri umræðu, herra forseti, að nokkur annar fjárlagaliður hafi hækkað með þeim hætti tvisvar. Ekki heilbrigðiskerfið, ekki frjáls félagasamtök — nei, en það barst neyðaróp úr Efstaleiti og því var svarað þá þegar, en dugði ekki til því að þetta sama fyrirtæki virðist nú vera rekið með 200 millj. kr. halla.

Ég hef nefnt það áður, og ég vil gera það enn einu sinni, herra forseti, að ohf., opinber hlutafélög, eru stjórnskipulegur bastarður. Um leið og ohf.-væðing verður virðast hlutirnir hafa lag til þess að breytast til verri vegar og við höfum mörg dæmi um það. Nýlegasta dæmið, og það sem hefur einna mest komið inn á borð þessa þings, er Pósturinn. Hörmungum þess fyrirtækis virðist ekki alveg lokið, því miður, og fór illa vegna þróunar og vegna þess að það var sett undir ohf. Ég hef sagt það áður og vil ánýja það enn einu sinni að ég tel að í sjálfu sér ætti að setja Ríkisútvarpið aftur á fjárlög eins og var, breyta því aftur í alvöruríkisstofnun í stað þess stjórnskipulega bastarðar sem það er í dag. Umfangið í starfseminni felst í þremur hlutverkum, aðalhlutverkum, þ.e. í öryggishlutverkinu, menningarhlutverkinu og hlutverkinu sem felst í því að miðla fréttum á hlutlægan hátt. Það er ekki verið að uppfylla þessi meginverkefni Ríkisútvarpsins, RÚV ohf., ekkert þeirra.

Sem dæmi má nefna að nýlega, þegar gaus á Reykjanesi, í 20 km fjarlægð frá næstu byggð, nokkuð stórri byggð, þá var það fjölmiðillinn Víkurfréttir sem varð fyrstur með fregnir af þessum atburði og það liðu líklega tveir tímar áður en dagskrá Ríkisútvarpsins, RÚV ohf., var löguð að því að flytja fregnir af atburðinum. Á þeim tveimur tímum sem liðu voru íbúar í grenndinni, sem voru á „áhrifasvæði“ þessa eldgoss, engu nær um það hvað til þeirra friðar heyrði. Þetta er nýlegasta dæmið um það að RÚV ohf. uppfyllir ekki öryggishlutverk sitt en sem betur fer varð ekkert tjón af því í þetta sinn.

Hvað varðar menningarhlutverkið þá er það svo að því miður er meðferð íslenskrar tungu í dagskrárliðum RÚV ohf. ekki með þeim hætti sem maður gæti vænst eða krafist af ríkisfjölmiðli sem hefur það hlutverk stærst og merkilegast að standa vörð um tunguna. Það er ekki að gerast heldur, herra forseti, ekki með þeim hætti sem vænta má af slíkri stofnun eða slíku fyrirtæki.

Þessa fyrirtækis er hvergi getið í frumvarpinu sem við fjöllum um hér og m.a. þess vegna er í nefndaráliti minni hlutans talað um þann stóra skugga sem RÚV ohf. varpar á fjölmiðlamarkaðinn, yfirburðastöðu þess á þeim markaði og þá staðreynd að í frumvarpi um fjölmiðla er ekkert fjallað um það að færa eigi hlutina að þeim veruleika og þeim nútíma sem við lifum.

Það er annað sem er mjög ámælisvert, herra forseti. Fyrir nokkru skipaði hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp eða nefnd þriggja alþingismanna einmitt til að fara yfir hlutverk RÚV, hvernig það ætti að breytast, t.d. hvað varðar auglýsingar o.fl. Þessi starfshópur átti að skila af sér þann 31. mars sl. Síðan eru liðnir rúmir 45 dagar og það er til vansa að við skulum nú vera að afgreiða þetta frumvarp um fjölmiðla án þess að helstu niðurstöður starfshópsins hafi verið gerðar opinberar. Ég vænti þess að áfangaskýrsla þessarar nefndar eða starfshóps verði birt nefndarmönnum í allsherjar- og menntamálanefnd, en að mínu áliti er það of seint. Það er of seint til þess að menn séu að taka afstöðu til þessa máls eins vel upplýstir og þeir gætu verið vegna þess að það vantar inn í myndina. Það vantar inn í hana einmitt þetta: Hvað svo? Frumvarpið sem við erum að tala um hér, herra forseti, er svona skyndiplástur. Það er ekki í fyrsta skipti sem þessi ríkisstjórn kemur hér með skyndiplástra í hinum ýmsu málum vegna þess að samstöðuna skortir og vegna þess að það skortir sýn. Þessa ríkisstjórn hefur alltaf skort sýn í hinum smæstu sem hinum stærstu málum. Þetta birtist m.a. í þeim málum sem hafa fylgt faraldrinum að þau úrræði sem boðað hefur verið til og gripið hefur verið til koma hér á svona fimm til sex vikna fresti í staðinn fyrir að menn hefðu haft almennilega framtíðarsýn. Þetta er ekki eftiráspeki, bent var á þetta þegar í upphafi faraldursins fyrir rúmu ári. En eins og ég segi, þessa ríkisstjórn skortir sárlega sýn.

Fyrir réttu ári skrifaði sá sem hér stendur sex greina flokk í vefmiðil um það sem við Íslendingar hefðum á þeim tíma átt að vera að vinna að til að búa okkur undir það að Covid-faraldrinum linni. Er skemmst frá því að segja að ríkisstjórnin hefur ekki gert nokkurn skapaðan hlut í því að móta einhvers konar sýn á það hvað eigi að gera þegar faraldrinum linnir. En þetta var nú útúrdúr, herra forseti. Það kemur því ekki á óvart að í málinu sem hér er til umræðu, þ.e. um fjölmiðla, er engin framtíðarsýn. Það á að tjalda til 20 mánaða, sem þýðir að fjölmiðlarnir verða aftur farnir að banka á dyrnar hjá fjárveitingavaldinu snemma næsta árs. Þeir munu örugglega spyrja, og þeir munu allir spyrja: Hvað svo? Þá verður vonandi búið að skipta um ríkisstjórn í landinu því að kosningar verða þá væntanlega afstaðnar. Vonandi hafa þá verið kosnir til valda flokkar sem koma sér ekki bara saman um það að velgja hér nokkrar stóla heldur hafa alvörusýn á þau höfuðmálefni sem þurfa úrlausnar við fyrir Íslendinga alla. Hugsanlega, herra forseti, fáum við þá alvörustefnumótun, alvörustefnumið, alvöruákvarðanir um það hvað á að gera til að tryggja hér fjölbreytta flóru frjálsrar og óháðrar fjölmiðlunar.

Í upphafsorðum nefndarálitsins segir, með leyfi forseta:

„Annar minni hluti er hlynntur vexti og viðgangi frjálsrar og óháðrar fjölmiðlunar og styður alla raunverulega viðleitni í þá átt. Frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra um breytingu á lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, (stuðningur við einkarekna fjölmiðla) nálgast ekki það markmið. Í raun er byrjað á öfugum enda …“

Það er einmitt það sem ég hef reynt að leiða fram í máli mínu hér og nú, að það er byrjað á öfugum enda í þessu máli. Í stað þess að byrja á því að einfalda skattumhverfi fjölmiðla á Íslandi og tryggja um leið jafnstöðu þeirra við erlendar dreifiveitur sem borga ekki nokkurn skapaðan hlut hér er farið í það að ríkisvæða alla fjölmiðla á Íslandi. Það er ekki að furða, herra forseti, að mörgum sjálfstæðisþingmönnum, sem hér hafa þó látið sjá sig í pontu einstaka sinnum, líði illa með þetta mál. Það er ekki að ófyrirsynju vegna þess að auðvitað er það vont fordæmi að þegar á bjátar í rekstri hér og hvar bregði menn á það ráð að ríkisvæða vandamálið í staðinn fyrir að finna lausn til að þeir sem eiga í vandræðunum geti unnið sig út úr þeim aðstæðum sjálfir, á sínum eigin forsendum, með jafnstöðu, með því að jafnræði ríki í rekstri fjölmiðla á Íslandi sem ekki er í dag, því miður. Það er þessi leiðrétting sem er svo nauðsynleg og ég geri ráð fyrir því að það sé m.a. þess vegna sem þeir ágætu hv. sjálfstæðisþingmenn sem ég vitnaði til hér áðan, tveir, lögðu í gær fram frumvarp um að draga RÚV af auglýsingamarkaði. Það er ein leið. Önnur leið er sú sem við Miðflokksmenn höfum bent á, sem er einföld, skilvirk, að neytendum verði gert kleift að styrkja þá fjölmiðla með áskrift, nauðungaráskrift, sem hugur þeirra stendur til; Stundina, Stöð 2 eða hvað það heitir, að menn ráði þessu sjálfir. Ég hef áður lýst því að áskriftin að RÚV, nauðungaráskriftin, fellur aldrei úr gildi fyrr en á kistulokinu, því miður. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr erum við dæmd til að vera þar félagar, félagsmenn, áskrifendur, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Ég ætla að ítreka það, herra forseti, að þegar breytingar eru gerðar, því að breytingar þarf að gera, á fjölmiðlaumhverfi á Íslandi verður að leggja til atlögu við stærsta fílinn í stofunni. Það verður að leggja til atlögu við hann með einhverjum hætti. Ég hef sagt áður og segi enn: Hvers vegna á ríkisvaldið að reka sjónvarpsstöð þegar hér eru efnisveitur úti um allt sem hægt er að ná í efni frá? Að vísu er nú eitt málskrípi á leið í gegnum þingið sem fjallar um það að skylda fjölmiðla til að 30% af efni þeirra á hverjum tíma skuli vera evrópskt. Evrópumenn framleiða, ef ég man rétt, um 8% af heildarsjónvarpsefni í heiminum og nú ætla karlarnir í Brussel, sem eru búnir að banna okkur að borða Cocoa Puffs og Cheerios, að ráða sjónvarpsdagskránni fyrir okkur líka, og undir þetta ætlum við að gangast. Svona ráðstafanir, ekkert ólíkar því sem við erum að vinna hér, skylda menn inn í eitthvert síló, hvort sem þeim líkar það betur eða verr.

Ég segi það aftur, herra forseti, vegna þess að mér er vel við RÚV ohf. og ég vil veg þess mikinn á þeim sviðum þar sem skyldur fyrirtækisins við þjóðina liggja, þ.e. í menningarhlutverkinu, sem er því miður ekki sinnt sem skyldi, og í öryggishlutverkinu, sem eins og ég nefndi dæmi um áðan er ekki að takast heldur. Ég tel að ef sjónvarpið væri t.d. frá RÚV tekið mætti sem best nota þá fjármuni sem þar sparast til að bjóða út gerð íslensks efnis þannig að þeir sem eru frjóir og skapandi gætu gengið í þann sjóð og við fengjum hér fjölbreytt og áhugavert efni. Þetta er t.d. eitt af því sem hægt er að hugsa sér, herra forseti. Ég set líka spurningarmerki við það að ríkið reki fréttastofu. Ég er orðinn það gamall að ég man eftir fréttastofunum Novostí og Tass sem voru ríkisfréttastofur ráðstjórnarríkjanna á sínum tíma. Ég get ekki séð að á þessum tímum nú þurfum við á slíku að halda, ekki síst þegar núverandi ástand tryggir í engu hlutlægni o.s.frv. Það er mjög eftirtektarvert að nú nýlega, í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Ingu Sæland, kom í ljós að það er himinn og haf á milli aðgangs hinna ýmsu stjórnmálasamtaka að hljóðnemum RÚV á hverjum tíma. Það er himinn og haf, herra forseti. Það er engin hlutlægni þar, ekki nokkur. Það er ekki alveg ljóst, alla vega ekki þeim sem hér stendur, á hvaða forsendum menn eru dregnir að þeim hljóðnemum, ríkishljóðnemunum sem eiga að útvarpa öllum skoðunum, sem eiga að útvarpa öllum sjónarmiðum og koma þeim á framfæri. En samkvæmt svari við þessari spurningu hv. þingmanns þá er síður en svo um það að ræða nú.

Þess vegna er það, herra forseti, eins og ég sagði í upphafi máls míns: Hér er byrjað á öfugum enda. Við ættum að vera að fjalla um frumvarp sem nær til framtíðar, sem hefur framtíðarsýn, sem hefur sýn á það hvernig fjölmiðlamarkaður á Íslandi á að líta út til framtíðar en ekki að vera að líma hér heftiplástur á sár sem ekki mun gróa á þeim 18 mánuðum sem þessi bráðabirgðaráðstöfun mun standa.