151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[14:21]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Enn þakka ég hv. þingmanni fyrir þetta góða andsvar. Það er alveg hárrétt sem fram kom í máli hans, og ég var reyndar búinn að benda á það í ræðu minni, að ég er vinur RÚV. Ég vil að RÚV hafi burði til að sinna þeim meginhlutverkum sem við höfum verið að ræða hér, t.d. öryggis- og menningarhlutverkinu. Hv. þingmaður segir: Hvað eigum við að gera ef RÚV verður tekið af auglýsingamarkaði, hvernig á þá að reka fyrirtækið? Það er þannig, herra forseti, ekki síst upp á síðkastið, þegar við höfum verið að glíma við Covid-veiruna og afleiðingar hennar, að mörg fyrirtæki, bæði opinber og í einkageiranum, hafa fundið mjög fyrir því og þau hafa lagað rekstur sinn að veruleikanum. Það er kannski það sem þarf að gerast hjá fyrirtækinu RÚV ohf., að það þarf að aðlagast þeim veruleika sem er uppi á hverjum tíma. Ég sagði það hér í ræðu einhvern tíma fyrr í vetur að fyrir utan kannski tækniframfarirnar væri RÚV í sjálfu sér enn eins og það var 1930, þ.e. við stofnun félagsins. Það eina sem hefur breyst er tæknin, það er komið sjónvarp og síðan kom litasjónvarp o.s.frv. og það er komin tölvutenging og allt það. En uppbyggingin og mentalítetið — mér er reyndar illa við að nota það orð, herra forseti, af því að við tölum bara íslensku hér — og stofnanabragurinn er kannski í grundvallaratriðum eins og hann var 1930. Það þarf að breytast, herra forseti, og þess vegna þurfum við að leggja fram mál, ekki þennan heftiplástur sem hér er, þennan skyndiplástur, sem tekur fjölmiðilinn lengra fram í tímann þannig að við getum sýnt að við höfum (Forseti hringir.) alvörusýn á þá hluti. Það er það sem við þurfum að gera.