151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[14:23]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Ég vildi þó koma aðeins inn í hana þar sem ég hef fylgst með henni, sérstaklega 2. umr. Við þekkjum það að efnahagslegur grundvöllur almennrar fjölmiðlunar, og þar með sígildrar blaða- og fréttamennsku, er í brennidepli umræðunnar og um allan heim leita menn leiða til að fjármagna vandað fjölmiðlaefni og upplýsingaöflun og tjáningu sem fyrst og fremst tekur mið af almannahagsmunum — á að gera það en ekki vera ofurseld sérhagsmunum eða markaðslögmálum. Síðan er það tæknibyltingin sem hefur skollið á í þessum geira með tilheyrandi breytingu á fjölmiðlanotkun. Þar er harðnandi samkeppni, t.d. þegar kemur að auglýsingamálum, sérstaklega erlendis frá, og markaðsvæðing á öllum sviðum fjölmiðlunar hefur að verulegu leyti kippt grundvellinum undan tekjugrunni þessarar hefðbundnu blaðamennsku, það þekkjum við, og gert hana háðari og viðkvæmari gagnvart markaðs- og sérhagsmunasjónarmiðum. Það er nú bara einu sinni þannig. Þetta gerist á sama tíma og eðli fjölmiðlunar breytist, áhrif samfélagsmiðlanna breyta umgjörð og fréttamati hefðbundinna miðla sem í vaxandi mæli taka mið af því sem deilt er og dreift manna á meðal. Þarna eru samfélagsmiðlarnir í aðalhlutverki, eins og við þekkjum.

Almennt er fjár til stuðnings fjölmiðlum í almannaþágu aflað með tvennum hætti. Annars vegar er um að ræða opinber fjárframlög sem koma þá ýmist í formi afnotagjalds í einhverju formi eða nefskatts eða útvarpsgjalds sem lagt er á skattborgarana og við þekkjum það vel hér á landi. Hins vegar er um sjálfsaflafé að ræða sem er þá aflað á auglýsingamarkaði með kostun eða með sölu á markaði á einhverjum framleiðsluafurðum viðkomandi fyrirtækja. Víðast hvar er farin blönduð leið fjármögnunar, en það er hins vegar mjög misjafnt hvernig sú blandaða leið er hugsuð. Þannig eru margar af stærstu almannaþjónustustöðvum í heiminum reknar með þessari blönduðu leið.

Í greinargerðinni í frumvarpinu er fjallað sérstaklega um Norðurlöndin og það er margt fróðlegt sem kemur þar fram. Hér er sérstakur kafli um beinan ríkisstuðning við einkarekna fjölmiðla á Norðurlöndum. Annars staðar á Norðurlöndunum er hin almenna stefna víðast hvar sú að halda almannaútvarpsstöðvum, sem eru á vegum hins opinbera, utan við samkeppni á auglýsingamarkaði á sama tíma og þær keppa við einkareknar stöðvar um áhorfendur og hlustendur. Þannig er t.d. norska ríkisútvarpið nánast algerlega án auglýsinga og aðrar stöðvar keppa við ríkisstöðvarnar á áhorfendamarkaði en ekki á auglýsingamarkaðnum. Ef maður skoðar Noreg sérstaklega er dregin upp dökk mynd af ástandinu á norskum fjölmiðlamarkaði og ef við skoðum það sem var þar til umfjöllunar kemur fram að viðtekin viðskiptamódel geta ekki tryggt nægar tekjur. Lægri tekjur og mikið umfang niðurskurðar á fréttastofum og ritstjórnum kemur í veg fyrir að stjórnendur hafi þær bjargir sem þarf til að skila til almennings raunverulega fjölbreyttu fjölmiðlaefni. Nefndin sem fjallaði um þessi mál í Noregi telur að mikil hætta sé á því að sú blaðamennska sem er nauðsynleg fyrir opinbera umræðu geti beinlínis horfið áður en tekist hefur að finna sjálfbært rekstrarmódel fyrir fjölmiðla. Í Noregi er því ríkur skilningur á lýðræðishlutverki fjölmiðla og háar upphæðir úr sameiginlegum sjóðum hafa um árabil farið í að styrkja fjölbreytni og fjölræði í norskum fjölmiðlum. Bent er á að ekki sé um annað að ræða á meðan efnahagslegar undirstöður fjölmiðlunar breytast ekki til hins betra og að nauðsynlegt sé að halda áfram með myndarlegum hætti á þeirri braut. Norðmenn vilja sem sagt kosta talsverðu til svo að lýðræðisleg umræða geti þrifist. Við Íslendingar höfum oft borið okkur saman við Norðmenn og aðrar Norðurlandaþjóðir og það er athyglisvert að sjá þennan samanburð og sérstaklega fróðlegt að bera saman íslenska og norska umræðu, hverju fólk er tilbúið að kosta til svo að tryggja megi fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum.

Herra forseti. Á bls. 2 í frumvarpinu er fjallað um umsóknir, þ.e. þegar fjölmiðill sækir um þann rekstrarstuðning sem fyrirhugaður er. Hér segir t.d., með leyfi forseta:

„Í því skyni að sannreyna stuðningshæfan rekstrarkostnað samkvæmt 62. gr. h getur úthlutunarnefnd óskað eftir viðeigandi upplýsingum frá umsækjanda, til að mynda virðisaukaskattsskýrslum og bókhaldi.“

Þetta er náttúrlega ákaflega mikilvægt. En það sem ég vildi koma inn á sérstaklega er kostnaðurinn við þessa umsýslu.

Enn segir:

„Fjölmiðlanefnd sér um umsýslu umsókna og veitir úthlutunarnefnd sérfræðiaðstoð eftir nánara samkomulagi. Kostnaður við mat á umsóknum og annarri umsýslu skal greiddur úr ríkissjóði.“

Það segir ekkert um það, og það er galli á frumvarpinu, herra forseti, hversu hár þessi kostnaður er. Það er bara talað um kostnað sem fellur á ríkissjóð við mat á umsóknum. Þetta gætu hugsanlega verið þrjú stöðugildi. Þetta gætu hugsanlega verið 10% af þeirri upphæð sem er til skiptanna að þessu sinni, þ.e. þessum 400 milljónum. Þá erum við hugsanlega komin með 40 milljónir í umsýslukostnað. Ég held að það sé nauðsynlegt að fá svör við því hvaða kostnað er um að ræða. Ég veit að fjölmiðlar bíða eftir því að þetta mál verði afgreitt og bíða eftir því að fá þessar greiðslur, og ljái þeim hver sem vill. Ég tek undir það sem hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, framsögumaður minnihlutaálits, kom inn á áðan í ágætri ræðu: Hvað svo? Er þetta það sem koma skal, að við verðum kannski að setja allt að hálfan milljarð á ári í einkarekna fjölmiðla hér á landi? Eða er þetta bara aðgerð sem gripið er til núna vegna veirufaraldursins og erfiðra rekstrarskilyrða? Ég held að það sé nauðsynlegt að svara því, að stjórnmálaflokkar svari því. Hvað sjá þeir fyrir sér í þessum efnum? Er það það sem koma skal, að ríkissjóður eigi að fara að styrkja þessa fjölmiðla til frambúðar? Það er orðið ansi margt sem ríkissjóður þarf að styrkja og hefur gert í gegnum veirufaraldurinn enda eru skuldir ríkissjóðs að aukast gríðarlega hratt og hallinn á þessu ári er um 320 milljarðar og verður meiri vegna aðgerða sem ríkisstjórnin er með í farvatninu og hafa verið kynntar fjárlaganefnd. Þetta er spurning sem maður þarf að velta fyrir sér og stjórnmálaflokkarnir þurfa að skýra frá stefnu sinni hvað varðar styrkveitingar almennt til einkarekinna fjölmiðla til framtíðar. Að öðrum kosti vildi ég taka undir það sem kemur hér fram, og ég hef sagt hér, að fjölmiðlar eru að sjálfsögðu mjög mikilvægir og gegna mikilvægu lýðræðislegu hlutverki í samfélaginu.

Í lokin, herra forseti, vil ég koma inn á það sem ég hjó eftir í 2. umr. og þá sérstaklega af hálfu Pírata og Samfylkingarinnar þar sem talað var fyrir því að lækka hið svokallaða þak niður í 50 milljónir þannig að stóru fjölmiðlarnir fengju ekki allt. Mér finnst gæta misskilnings í þessari umræðu og þá líka um það hvert eðli miðlanna er í raun og veru. Blaðamannafélagið hefur m.a. tjáð sig um þetta og það kemur fram hjá því að langflestir meðlimir félagsins séu hjá þessum stóru miðlum. Það eru á bilinu 130–150 manns hjá Morgunblaðinu og Fréttablaðinu, Sýn, Stöð 2 og Vísi. Þessir miðlar reka fréttaþjónustu allan sólarhringinn alla daga ársins og reynt er að segja fréttir af veðri, tíðarfari, slysum, náttúruhamförum og öðru því sem gerist í þjóðlífinu. Sumir þessara fjölmiðla eru jafnvel með þjónustu um allt land og þessir miðlar eru með fólk alla daga allt árið við að segja fréttir og þjónusta fólk og stundum í þeirri vanmáttugu tilraun til að keppa við risann á markaði, Ríkisútvarpið, sem rekur sig náttúrlega óháð efnahagslegum veruleika annarra fjölmiðla, ef svo má að orði komast.

Ég held að rétt sé að hafa þetta í huga, þ.e. að eðli miðlanna er ekki það sama þegar kemur að þessari þjónustu. Að sjálfsögðu er mikilvægt að styðja við litla einkarekna fjölmiðla en menn geta náttúrlega alltaf deilt um það, og verða sjálfsagt aldrei sammála því, með hvaða hætti þessu verður útdeilt. Það er mikilvægt að gagnsæi ríki í umsóknarferlinu. Hér er talað um úthlutunarnefnd sem muni auglýsa eftir umsóknum um rekstrarstuðning, hverjir komi til með að sitja í þeirri nefnd og annað slíkt. Það þarf að passa upp á alla þessa hluti og að þarna sé gætt að sanngirni og gagnsæi. Það er ákaflega mikilvægt að ekkert geti valdið tortryggni í slíku umsóknarferli.

Að þessu sögðu vil ég ítreka það sem ég hef sagt, það er mjög mikilvægt að rekstrargrundvöllur fjölmiðla sé í lagi. Það skiptir okkur verulegu máli. Við getum svo tekið þessa umræðu, og það er nauðsynlegt að taka hana, varðandi Ríkisútvarpið á auglýsingamarkaði. Það er fullkomlega óeðlilegt að fjölmiðill sem fær svona háar upphæðir úr ríkissjóði árlega sé síðan sá sem nær til sín mestu af auglýsingatekjunum. Það er verkefni sem þarf svo sannarlega að ráðast í og finna eðlilega lausn á. Ég held að menn hljóti að sjá að það er ekki sanngirni í því að stærsti aðilinn á markaði fái þessar miklu fjárveitingar úr ríkissjóði og sé svo dóminerandi eða alla vega sá sem fær mestar auglýsingatekjurnar, það er erfitt fyrir minni fjölmiðla að keppa í því umhverfi. Þetta er að sjálfsögðu mjög mikilvægt atriði sem þarf að finna viðeigandi lausn á til frambúðar.

Að öðru leyti segi ég að lokum: Það er mikilvægt að bregðast við þessum ákveðna vanda en mörgum spurningum er hins vegar ósvarað. Er þetta komið til með að vera til framtíðar? Það er mjög mikilvægt að menn velti því fyrir sér hver lausnin sé til frambúðar. Þó að hér sé um að ræða einskiptisaðgerð, ef svo má að orði komast, til að bregðast við ákveðnum vanda er nauðsynlegt að stefnumörkunin liggi fyrir í þessum málaflokki til frambúðar.