151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[14:39]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Fjölmiðlafrelsi á Íslandi á undir högg að sækja. Það er eitthvað sem ætti að vera okkur öllum ljóst og það er staðreynd sem ekki er hægt að leiða hjá sér og ekki hægt að breyta með því að samþykkja frumvarp upp á 400 millj. kr. Stærsti hluti þeirra fjármuna mun fara til stærri fjölmiðla á Íslandi og svo það sé sagt beint út og þá er ég sérstaklega að vísa í Morgunblaðið.

Fyrir stuttu birtu samtökin Blaðamenn án landamæra lista yfir stöðu fjölmiðlafrelsis í löndum heimsins. Þar hafði Ísland færst niður um sæti og var þá sérstaklega nefnd herferð Samherja gegn fjölmiðlafólki hér á landi. Auk þess lýstu samtökin almennt yfir áhyggjum sínum af því aukna vantrausti sem ríkir til blaða- og fréttamanna á heimsvísu. Þetta frumvarp breytir voðalega litlu til eða frá hvað varðar rekstrargrundvöll fjölmiðla á Íslandi. Líkt og komið hefur fram í umsögnum sem bárust allsherjar- og menntamálanefnd eru umsagnaraðilar sammála um að það sé fínt að verið sé að skoða þetta en það vanti að skoða þetta í samhengi við svo ótal marga hluti.

Ég tek sem dæmi það sem kemur fram í umsögn Kjarnans, með leyfi forseta:

„Sú útgáfa af styrkjakerfi sem nú stendur til að innleiða viðheldur bjögun á fjölmiðlamarkaði sem má ekki við meiru. Hún birtist í því að fjársterkir aðilar velja að niðurgreiða ósjálfbær rekstrarmódel sem gerir þeim fjölmiðlum sem eru í vexti og sjálfbærum rekstri mun erfiðara fyrir að keppa á jafnréttisgrundvelli.“

Síðar segir:

„Styrkjakerfi undir eðlilegum formerkjum myndi vökva sprota sem okkar, og fjölmarga aðra sambærilega, m.a. þá sem flytja fréttir í heimahéraði, þannig að þeir gætu vaxið og dafnað. Ráðið fleira fólk og þróað vöruframboð sitt. Tryggt betur sjálfstæði sitt. Það myndi líka verðlauna grænar og sjálfbærar rekstraráherslur. Þess í stað hafa verið gerðar breytingar á upprunalegum tillögum sem leiða til þess að sett verði upp kerfi sem verðlaunar óráðsíu og letur ósjálfbær og óumhverfisvæn fjölmiðlafyrirtæki frá því að stíga inn í stafrænan nútímann.“

Mig langar líka að nefna dæmi frá einum af stærri fjölmiðlunum. Það kom fram hjá þessum umsagnaraðilum, hvort sem það var frá stórum eða litlum fjölmiðlum, að frumvarpið sem liggur fyrir leysi ekki nein vandamál í stóra samhenginu. Sýn, sem er eitt af stóru fjölmiðlafyrirtækjunum á Íslandi, segist styðja frumvarpið svo langt sem það nái, en í umsögninni segir:

„Samhliða er brýn þörf að löggjafinn tryggi að erlendar efnisveitur beri sömu skyldur og innlendar, til að mynda þegar kemur að kröfum til talsetningar og þýðingar efnis. Í dag er samkeppnisstaðan afar skökk hvað þetta varðar. Efnisveitunni Viaplay, sem nýverið tryggði sér sýningarrétt á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á árabilinu 2022–2028, er að óbreyttum lögum í sjálfsvald sett hvort íslenska verði notuð í lýsingu á leikjum landsliðsins.“

Af þessum umsögnum er ljóst að frumvarpið leysir í raun engan vanda hjá einkareknum fjölmiðlum. Það þarf að fara fram heildarendurskoðun á fjölmiðlamarkaði á Íslandi og ríkisstjórnin og valdhafar þurfi að gera upp við sig hvort hér á landi eigi að vera blómlegur fjölmiðlamarkaður byggður á grunni virks tjáningarfrelsis eða ekki.

Áhyggjur mínar lúta að því að samþykkja eigi þetta frumvarp svo að mennta- og menningarmálaráðuneytið geti sagt að það hafi beitt sér í eflingu fjölmiðlafrelsis á Íslandi. Raunin er sú að allt frá því að Mannréttindadómstóll Evrópu taldi íslenska ríkið hafa brotið á tjáningarfrelsi fjölmiðla í tilteknum málum hefur verið kallað eftir því að valdhafar og ríkisstjórnin grípi til raunhæfra aðgerða til verndar fjölmiðlafrelsi og tjáningarfrelsi. Þetta eru grunnstoðir lýðræðisins okkar og ef við teljum okkur búa í lýðræðissamfélagi þurfum við að hafa öfluga fjölmiðla og við þurfum að tryggja góða og upplýsta rannsóknarblaðamennsku.

Rannsóknarblaðamennska er að mestu leyti stunduð á smærri fjölmiðlum hér á landi. Og já, þessar umfjallanir varða oft ríkisstjórnina og geta verið óþægilegar fyrir þau sem sækjast eftir endurnýjun á völdum sínum hér í haust. Það er heldur ekki hægt að líta fram hjá því að hagsmunasamtök hafa gríðarlega mikil áhrif á fjölmiðlaumræðu hér á landi. Í því samhengi vil ég benda á ummæli seðlabankastjóra fyrir nokkrum vikum um að fjársterkir hagsmunahópar hafi gríðarleg áhrif á umræðu í samfélaginu. Í síðustu viku fékk Morgunblaðið einhvers konar einkabirtingarrétt á skýrslu frá sjávarútvegsráðuneytinu og öðrum fjölmiðlum var ekki leyft að fá aðgengi að henni. Það ætti kannski ekki að koma okkur á óvart um hvað skýrslan fjallaði, hún fjallaði um íslenska kvótakerfið og hvernig það kerfi væri betra en önnur kvótakerfi. Morgunblaðið var eini fjölmiðillinn sem fékk að fjalla um þessa skýrslu og var öðrum fjölmiðlum neitað um aðgang að skýrslunni. Þetta er vandamál og það vandamál verður ekki leyst með þessu frumvarpi hér og nú. En auðvitað er erfitt að setja sig upp á móti því þar sem frumvarpið er sett fram sem svar við ákalli um að tryggja rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi.

Stærsti hlutinn af þessum fjármunum, eins og frumvarpið er sett fram núna, mun fara til stærri fjölmiðla og þar á meðal til Morgunblaðsins sem eftir mínum útreikningum að dæma fengi 100 milljónir af þeim 400 milljónum sem hér er verið að úthluta. Frumvarpið á að vera til skemmri tíma og auk þess verð ég að benda á að þegar þetta frumvarp var til umræðu í allsherjar- og menntamálanefnd þá kom hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Lilja Alfreðsdóttir á fund nefndarinnar og tilkynnti að stofna ætti starfshóp til að fara yfir rekstrarumhverfið. Eins og ég skildi það mál átti starfshópurinn að fara almennt yfir rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi, ekki bara RÚV. En þá þarf líka að skoða Ríkisútvarpið í samhengi við einkarekna fjölmiðla. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess hér hvort mér finnist að það eigi að vera á auglýsingamarkaði eða ekki. Það er mikilvægt að ríkisrekinn fjölmiðill sé til staðar. Hann er mikilvægur til að geta komið fram með upplýsingar er varða almenning og það ætti að vera flestöllum ljóst. Hins vegar þurfa aðrir fjölmiðlar líka að vera til staðar til þess að fjalla um önnur mál. Sem dæmi má nefna umfjallanir frá Stundinni sem sett var lögbann á af því að tvær vikur voru í kosningar og tiltekinn einstaklingur sem var í framboði þá vildi ekki að sú umfjöllun myndi birtast. Í þessu kjarnast það sem mér finnst svolítið hafa komið fram síðustu ár, að ríkisstjórnin virðist vera hrædd við fjölmiðla. Hún virðist vera hrædd við fjölmiðla og hún virðist vera hrædd við stór einkafyrirtæki sem versla með kvóta. Þennan ótta er heldur ekki hægt að fela með því að samþykkja það frumvarp sem liggur hér fyrir.

Ég hefði viljað sjá skýra afstöðu frá ríkisstjórninni, ekki bara frá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra heldur frá ríkisstjórninni í heild, þess efnis að það skipti þau máli að það sé fjölmiðlafrelsi í landinu, að þau taki því alvarlega þegar fregnir berast um að við höfum fallið niður á lista um styrk fjölmiðlafrelsis hér á landi, að þau taki því alvarlega þegar seðlabankastjóri segir að hagsmunasamtök hafi mikil áhrif á opinbera umræðu hér á landi. Þetta eru hlutir sem skipta máli. Þetta eru hlutir sem ítrekað hefur verið reynt að benda á og þetta eru þættir sem ríkisstjórnin virðist ekki skilja að séu mikilvægir. Mér finnst það sýna skort á samstarfsvilja — það er svolítið djúpt í árinni tekið, en sem nefndarmaður í nefnd tek ég starf mitt mjög alvarlega. Ég tek það alvarlega þegar stjórnarfrumvarp er lagt fram. Ég ber virðingu fyrir því að ráðherrar láti sig málefni varða en ég tek því ekki vel þegar það er sett fram að koma eigi í gagnið einhvers konar starfshópi til að fara heildstætt yfir þessi mál og því er lofað að það verði gert af festu en svo gerist bara ekki neitt. Svo stöndum við hér uppi þremur vikum fyrir þinglok og eigum að samþykkja þetta frumvarp. Það eru bara vinnubrögð sem ég get ekki sætt mig við og mér finnst þau ekki vera boðleg.

Að þessu sögðu segi ég: Við Píratar berum mikla virðingu fyrir fjölmiðlum og fjölmiðlafrelsi á Íslandi. Okkur þykir mikilvægt að það sé virt. Okkur þykir mikilvægt að almenningur fái þær upplýsingar sem hann á rétt á. Og okkur þykir mikilvægt að ríkisstjórnin taki því alvarlega þegar fram koma ábendingar um að ekki sé verið að virða tjáningarfrelsi eða fjölmiðlafrelsi hér á landi.