151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[14:49]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Fjórða valdið á undir högg að sækja og fjórða valdið er óhemjumikilvægt. Því verður naumast komið í orð hversu mikilvægt fjórða valdið er í hinu lýðræðislega samfélagi og hve mikilvægt það er öllum almenningi til að eiga þess kost að mynda sér skoðanir á grundvelli upplýsinga og óvilhallra fréttaskýringa frekar en áróðurs og tröllasagna. Frumvarpið er viðbragð við því að fjórða valdið á undir högg að sækja. Markaðsbrestur er ríkjandi og hefur verið um nokkurt skeið og sá markaðsbrestur er að mínu mati einkum til kominn vegna þess að neytendur, notendur fjölmiðla, eru hættir að greiða fyrir not af fjölmiðlum í meira mæli en nokkru sinni áður. Það er fullkomlega eðlilegt að sleppa því að greiða áskrift að ákveðnum fjölmiðli þegar maður á þess kost að njóta frétta, sem viðkomandi fjölmiðill hefur jafnvel framleitt, án þess að greiða fyrir það á alþjóðlegum samskiptamiðlum og alþjóðlegum miðlum sem deila slíkum fréttum og deila viðbrögðum fólks við slíkum fréttum. Það er alveg hægt að halda sér ágætlega upplýstum án þess nokkru sinni að greiða áskrift að hefðbundnum fjölmiðli.

Sá sem greiðir fyrir efni fjölmiðils gerir það oftast nær vegna þess að hann vill styðja og styrkja þann fjölmiðil sem um ræðir. Hann telur að það efni sem þar er búið til og framleitt eigi erindi við almenning og í opinbera umræðu og það sé mjög mikilvægt að slíkur fjölmiðill geti starfað, að mikilvægt sé að fagleg blaðamennska sé stunduð í landinu vegna þeirra áhrifa sem ég nefndi hér á undan. En fólk er sem sagt hætt að borga fyrir afnot af fjölmiðlum. Það er hinn stóri markaðsbrestur sem er orðinn og jafnvel má segja að rekstur fjölmiðla af því tagi sem tíðkaðist hér á síðustu öld og framan af þessari byggist á úreltu rekstrarmódeli og það á ekki síst við um dagblöð, áskriftardagblað á borð við Morgunblaðið. Slíkum fjölmiðli er haldið úti í bullandi taprekstri vegna skyldra sjónarmiða og ég viðraði hér áðan þegar við sem neytendur greiðum fyrir afnot fjölmiðils vegna þess að við teljum mikilvægt að efni þess fjölmiðils komist til almennings. Í tilviki Morgunblaðsins eru það eigendur fjölmiðilsins sem telja mikilvægt að efni þess fjölmiðils komist til almennings og vilja stuðla að því að svo megi verða með því að leggja fram ómælda fjármuni.

Nú, þegar til stendur að styrkja slíka starfsemi, styrkja slíka eigendur, styrkja auðmenn sem reka fjölmiðla í miklum taprekstri, er óhætt að grípa til gamalla hugtaka frá síðustu öld þegar talað var um sósíalisma andskotans — og bið ég forseta velvirðingar á munnsöfnuðinum — eða pilsfaldakapítalisma. Það er markaðsbrestur í umhverfi fjölmiðla á Íslandi og mönnum hefur annars vegar orðið tíðrætt um starfsemi alþjóðlegra efnisveitna og slíkra fjölmiðlafyrirtækja og hins vegar hefur mönnum orðið mjög tíðrætt um Ríkisútvarpið, RÚV, og fyrirferð þess á auglýsingamarkaði sem talið er að standi vexti og viðgangi einkarekinna fjölmiðla fyrir þrifum. Það má vera að svo sé og ég tel að þetta þurfi að rannsaka, bæði þurfi að komast að því hver þau áhrif eru og líka að komast að því hversu líklegt sé að þær auglýsingar sem nú birtast í Ríkisútvarpinu rati til innlendra einkarekinna fjölmiðla. Það þarf að rannsaka þetta vel áður en sú ákvörðun er tekin að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði.

Ríkisútvarpið hefur verið á auglýsingamarkaði síðan 1930 en sjónvarp Ríkisútvarpsins hefur verið á auglýsingamarkaði frá árinu 1966 og hefur allan þann tíma sem það hefur verið starfrækt verið með auglýsingar. Þar með hefur myndast, skyldi maður ætla, einhvers konar jafnvægi, einhvers konar ástand sem kannski er óheilbrigt. Ég veit það ekki. Það eru aðrir sem eru betur til þess fallnir að meta það en ég. Þar held ég að við þurfum að fá fræðimenn, við þurfum að fá auglýsendur og við þurfum að fá fagmenn á sviði auglýsinga, til að hjálpa okkur við að leggja mat á það. Við eigum ekki að leggja mat á það út frá hugmyndafræðilegum ástæðum eins og manni virðist sumir hv. þingmenn gera og þegar ég hef verið að hlusta á suma þingmenn tala um Ríkisútvarpið og ríkið þá hefur mér óneitanlega orðið hugsað til Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta sem boðaði að ríkið væri vandamál allra hluta en ekki lausn á neinum. Ríkið væri vandamálið alls staðar og þannig virðast þessir frjálshyggjumenn í Miðflokknum og í Sjálfstæðisflokknum líta á Ríkisútvarpið. Það er hugsjón, það er hugmyndafræðileg kredda, að ríkið skuli ekki taka þátt í rekstri af þessu tagi og þar með sé það útrætt.

Ég tel að með frumvarpinu sé verið að bregðast við brýnum vanda sem fjölmiðlar eiga í, einkareknir fjölmiðlar. Ég tel að brýnir almannahagsmunir standi til þess að fjölmiðlar þrífist hér á landi og geti starfað og geti haldið áfram að þjóna almenningi. Ég er ekki sammála því mati sem vitnað var til hér áðan í tvígang af þingmönnum Miðflokksins, sem kom fram hjá talsmanni Blaðamannafélags Íslands, að frekar eigi að hygla stóru fjölmiðlunum vegna þess að þar vinni fleiri og þar séu stærri ritstjórnir. Ég er ekkert viss um að það sé rétt og ég er alls ekki viss um að það sé heldur rétt að þar séu menn afkastameiri en á litlum fjölmiðlum á borð við Stundina eða Kjarnann, hygg raunar að svo sé ekki. Ég held að við séum hér að bregðast við markaðsbresti sem er sá sem ég hef áður lýst í þessari ræðu, þ.e. stóri markaðsbresturinn er sá að tæknin hefur gert það að verkum, og nýir miðlar í kjölfar nýrrar tækni, að fólk hefur einfaldlega vanist á að þurfa ekki að greiða fyrir afnot af fjölmiðlum.

Ég er hins vegar ekki viss um að þetta sé viðvarandi brestur. Ég held að það sé óeðlilegt ástand að þú getir notið afraksturs af vinnu annarra án þess að greiða fyrir það. Ég held að dæmin hafi sýnt að þróunin sé í þá átt að fólk vilji greiða fyrir það sem aðrir búa til í hendur þess. Fólk vill greiða listamönnum fyrir það sem þeir skapa, fólk vill greiða fyrir tónlist, það sýna dæmin. Fólk vill greiða fyrir bókmenntir. Tæknin hefur fundið leiðir til að gera þetta kleift og ég held að svipuð þróun muni eiga sér stað og sé raunar að eiga sér stað þar sem fjölmiðlar eru annars vegar. Vandi fjölmiðla er hins vegar brýnn og ég tel ekki forsvaranlegt að standa gegn frumvarpinu þó að það sé nú í þeirri mynd að ég hafi ýmsar og raunar margar athugasemdir við það og sjái þar ýmislegt sem ég tel betur mega fara.

Ég tel hins vegar að vandinn sé þess eðlis að við þurfum að bregðast við honum núna. Ég tel að við þurfum snarlega að koma þessum sjóði á fót og að hann verði að fá að sanna sig með því að starfa í einhvern tiltekinn tíma. Ég var andvígur sólarlagsákvæðinu í frumvarpinu sem var samþykkt í 2. umr. Ég tel mikilvægt að sjóður af þessu tagi fái að þróast og þroskast og fólk fái að læra á það hvernig hann virkar. Ég tel að ákveðin festa eigi að vera í starfsemi sjóðs af þessu tagi og fyrirsjáanleiki. Fyrirsjáanleiki er ákaflega vanmetinn eiginleiki í íslensku viðskipta- og efnahagslífi. Þegar fram líða stundir má sjá fyrir sér að svona sjóður þróist yfir í einhvers konar styrktarsjóð rannsóknarblaðamennsku, eins og nefnt hefur verið, eða styrktarsjóð þess að fólk getur helgað sig stærri verkefnum á þessu sviði sem taka lengri tíma; kostar tíma og fyrirhöfn og peninga að vinna. Ég tel að slíkur sjóður muni alltaf hafa næg verkefni.