151. löggjafarþing — 99. fundur,  20. maí 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[15:04]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við 1. og 2. umr. þessa máls höfum við rætt um stöðu einkarekinna fjölmiðla. Ég held að segja megi að það einkenni þessa umræðu að öllum er staðan ljós, um þann þátt er enginn ágreiningur, og staðan hefur auðvitað verið okkur öllum ljós lengi. Mikilvægi fjölmiðlanna fyrir samfélagið og fyrir lýðræðið í samfélaginu, vil ég leyfa mér að segja, er okkur öllum sömuleiðis ljóst. Það er í því ljósi sem ég vil ítreka að seinagangur hæstv. menntamálaráðherra hvað varðar einkarekna fjölmiðla er alvarlegur. Það er auðvitað ljóst af umræðum um þetta mál, bæði hér í þingsal og ekki síður í allsherjar- og menntamálanefnd, að ríkisstjórnin getur ekki staðið saman að máli sem speglar einhverja framtíðarsýn eða einhverja hugmyndafræði um fjölmiðla á Íslandi og þann markað. Hér er komið fram mál sem augljóst er að þingmönnum Sjálfstæðisflokksins líður illa með. Þetta mál er þannig úr garði gert að þingmenn Vinstri grænna í allsherjarnefnd skrifa undir það með fyrirvara. Það segir allnokkra sögu þannig að í reynd er þetta, að manni virðist, mál sem Framsóknarflokkurinn stendur fyrst og fremst að og jafnvel með.

Nefndarálit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar er texti sem einkennist fyrst og fremst af því, finnst mér, sem þar er ekki sagt. Ég held að í stjórnmálunum sé það oft þannig að þögnin segi mikla sögu og það gerir hún auðvitað hér. Mér finnst það vera í grundvallarmálum eins og þessum þar sem veikleiki þessarar stjórnar verður áþreifanlegur. Það er að gerast og hefur gerst í þessu máli. Okkur er öllum ljóst að staða einkarekinna fjölmiðla er þung og erfið og að markmið frumvarpsins er mikilvægt og gott, og ég styð það markmið að efla innlenda einkarekna fjölmiðla. Það er einfaldlega í þágu samfélagsins alls að gera það enda er rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla erfitt, staða fjölmiðla þung og þeir standa veikir og í því felst hætta. Það hefur vantað, í allri umræðu um þetta mál, að fara á dýptina í samtali um það hvað veldur. Hvers vegna er rekstrarumhverfi fjölmiðlanna svona þungt? Hvað er það sem hefur mesta þýðingu í þeim efnum? Er eitthvað hægt að gera varðandi þær breytur sem valda þessari þungu stöðu? Það samtal vantar og það er, held ég, um það atriði sem ríkisstjórnin getur ekki náð saman. Hún getur t.d. ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu um það hvort og í hvaða mæli RÚV á að vera á auglýsingamarkaði og þess vegna er einfaldlega engin umfjöllun um það atriði. Hún getur heldur ekki náð utan um og tæklað eða brugðist við þeirri staðreynd að erlendir risar, efnisveitur, hafa áhrif á innlendan markað en greiða hér engin gjöld, laun eða skatta og hafa mikil umsvif. Með því að taka ekki heldur á þeim þætti mun þetta frumvarp fyrst og fremst skila því að koma inn með þessar sporslur sem eru engu að síður háar upphæðir fyrir íslenska ríkið og íslenska skattgreiðendur, en þetta mál mun fyrst og fremst áfram viðhalda erfiðu og þungu rekstrarumhverfi einkareknu fjölmiðlanna.

Við vitum að sett var upp nefnd þriggja stjórnarþingmanna til að ræða þau mál, kannski til að klippa þá þætti úr frumvarpinu sem sundra ríkisstjórnarflokkunum. Spurningarnar um stöðu RÚV á auglýsingamarkaði eru teknir til hliðar í sérstakri nefnd, út fyrir allsherjarnefnd þingsins, og sömuleiðis um efnisveiturnar. Þess í stað er farin sú leið að senda einkareknum fjölmiðlum styrk upp á 400 millj. kr. á ári. Pólitíska hugmyndafræði um fjölmiðlaumhverfi á Íslandi vantar alveg inn í þetta mál. Markmiðið er að efla einkarekna fjölmiðla til að gera þeim betur kleift að sinna hlutverki sínu í nútímalýðræðissamfélagi og það er óskaplega mikilvægt markmið. Það blasir auðvitað við að þegar engin sérstök hugmyndafræði er að þeirri leið heldur bara dýr plástur verður niðurstaðan engin til lengri tíma litið vegna þess að það er ekkert fjallað um þessar tvær lykilbreytur um stöðuna, þ.e. erlendar efnisveitur sem soga til sín fjármagn og ákveðna yfirburðastöðu RÚV. Það virðist hafa leitt til þess að hluti stjórnarþingmanna getur ekki hugsað sér að styðja málið nema setja sólarlagsákvæði inn þannig að hér sé í reynd verið að ræða um aðgerðir til næstu tveggja ára, frumvarp sem mun bjóða styrki til loka ársins 2022. Þar virðast sársaukamörk Sjálfstæðisflokksins hafa legið, hann getur ekki farið lengra en það. Svo er að sjá hvað verður að þeim tíma liðnum, en það bíður nú annarrar stjórnar. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að hið pólitíska markmið og hið pólitíska samtal hafi auðvitað átt að snúast um meira en þetta, um það að skapa hér vænlegar aðstæður fyrir einkarekna miðla til lengri tíma litið.

Ég vil ítreka að það er afdráttarlaus skoðun mín að vandaður, innlendur, ríkisrekinn fréttamiðill, RÚV, sé af hinu góða. Ríkisrekinn miðill og einkareknir eiga hins vegar að geta lifað saman á markaði og við bestu aðstæður ætti þetta að geta farið saman hönd í hönd þannig að miðlarnir, ríkisreknir sem og einkareknir, geti beint og óbeint stutt hver við annan með sameiginlegri tilvist sinni. Þess vegna er svo blóðugt að við séum ekki hér að ræða báða þætti þessa máls samhliða, þ.e. ríkisrekna miðilinn og einkarekna miðilinn annars vegar og hins vegar þær alþjóðlegu breytur sem ég kom inn á áðan. Það er ótrúlegt að hlusta reglulega á orð hæstv. menntamálaráðherra í fjölmiðlum sem talar um að hún sé þeirrar skoðunar að hlutirnir á fjölmiðlamarkaði eigi að vera með ákveðnum hætti, að hún vilji sjá tilteknar breytingar sem hún leggur samt ekki til, lætur ekki einu sinni á það reyna hvernig fyrir þeim færi hér í þingsal og hefur ekki gert sína ráðherratíð. Það er eins og hæstv. menntamálaráðherra gleymi því stundum að titli hennar fylgja völd. Hún gefur yfirlýsingar um einhverjar hugmyndir sem hún leggur samt ekki fyrir löggjafarþingið. Það skilar því að heildarstefnu vantar alveg inn í þetta mál og það er ótrúlega alvarlegt í ljósi mikilvægis og hlutverks fjölmiðla því þegar stigið er inn á markaðinn með þessum hætti getur það haft í för með sér ófyrirséðar afleiðingar en kannski afleiðingar sem jafnvel voru fyrirséðar og mögulega markmiðið. Ég er líka þeirrar skoðunar að með einhverjum hætti sé eðlilegt að styðja einkarekna fjölmiðla í ljósi grundvallarhlutverks þeirra og með það markmið að þeir standi sterkir á markaði. En það þarf auðvitað að horfa til þess í hvaða formi það er gert og með hvaða hætti. Er t.d. hægt að liðka fyrir um skatta og gjöld eða á að fara inn með beinar greiðslur? Væri hægt að gera það samhliða með því að ýta undir nýsköpun á þessu sviði? Ætti að vera um samkeppnissjóð að ræða o.s.frv.? Auðvitað er ekki sjálfgefið að ríkið niðurgreiði beinlínis rekstur einkarekinna fyrirtækja á markaði. Ég leyfi mér að segja í því sambandi að nálgunin ætti að vera sú að sönnunarbyrðin hljóti að vera á þeirri hugmynd að fara inn með þeim hætti. Það er alls ekki sjálfgefið. Samkvæmt þessari leið fær enginn fjölmiðill meira en 100 millj. kr. á ári. Það er niðurstaða ríkisstjórnarflokkanna. Önnur framsetning gæti verið: Einn fjölmiðill getur fengið 100 millj. kr. frá ríkinu á ári hverju þar sem 400 eru í pottinum. Hvaða miðlar falla þar undir? Og hver er hugsunin þar að baki? Hvaða áhrif mun það hafa á aðra miðla? Og hvað erum við þar farin að gera í samhengi við eðlilega samkeppni á markaði? Hvaða áhrif mun þetta hafa á þá sem eru minni en svo að þeir geti þegið þessi framlög frá ríkinu? Ég held að við séum hér komin út í varhugaverðar aðferðir og aðgerðir og í því samhengi er ástæða til að minna aftur á umsögn Samkeppniseftirlitsins við málið sem minnir á að eitt meginmarkmið fjölmiðlalaganna sé að stuðla að fjölbreytni í fjölmiðlum.

Staðan á fjölmiðlamarkaði er ekki ný. Þess vegna er þetta mál hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra mikil vonbrigði. Allt þetta kjörtímabil hefur þessi staða verið til umfjöllunar og til umræðu í samfélaginu og hér inni í þingsal annað slagið. Á heilu kjörtímabili er þetta engu að síður svarið og niðurstaðan. Staðan er ekki svart/hvít hvað varðar fjölmiðlana, lausnirnar eru það ekki heldur. Það er ekki þannig að einhver einföld lausn sé á málinu. En það þarf að vera þannig, þegar svona aðgerð er teiknuð upp, að það sé einhver hugmyndafræði og einhver sýn sem er leiðarljósið. Það sést vel að svo er ekki í þessu máli og afstaða stjórnarþingmanna sjálfra og umræðan hér í salnum kristallar það algerlega. Ég verð að segja að mér finnst það vont, og það eru vonbrigði, að hæstv. ráðherra fjölmiðla sé ekki viðstaddur umræðuna sem hefur verið góð í dag. Það er hluti af því að þetta pólitíska samtal vantar. Ég endurtek að ég er þeirrar skoðunar að mikilvægi fjölmiðla sé slíkt að hægt sé að réttlæta stuðning við þetta mál og það verður gert í þágu almannahagsmuna vegna þess að fjölmiðlarnir eru liður í því að verja lýðræðið. En það skiptir máli hvernig hlutirnir eru gerðir. Mér finnst þetta mál bera með sér ákveðið getuleysi þessara þriggja flokka, að lausnin sem hér er búið að prjóna upp sé einhvern veginn ekki nein. Það vantar pólitíska hugmyndafræði og frumvarp og afurð í samræmi við þá hugmyndafræði. Hér er, og það er það sem ég gagnrýni helst, ekkert tekið á þessum erlendu efnisveitum, ekkert um RÚV og stuðningur er dreginn upp út árið 2022. Það sést svo vel, þegar nefndarálit meiri hlutans er lesið, að ekki er verið að fjalla um neinn þeirra þátta sem verið hafa til umræðu allt kjörtímabilið. Mikið er talað um það sem þarf að skoða, það er verið að árétta sjónarmið en engin skref eru stigin. Talað er um markmiðið um að jafna stöðu innlendra og erlendra miðla en engar aðgerðir eru lagðar til, ekki ein einasta aðgerð sem gæti jafnað leikinn að þessu leyti. Það umræðuefni er falið inni í nefnd nokkurra stjórnarþingmanna og ég get ekki séð að nein sérstök teikn séu um að sú nefnd eigi að skila einhverju inn sem muni hafa áhrif á þetta mál.

Ég er ekki alveg lent með það hvernig ég ætla að greiða atkvæði í þessu máli því að mér finnst uppleggið vont og margt þar sem erfitt er að fella sig við. En ég er auðvitað vel meðvituð um að staðan er alvarleg og hún kallar á viðbrögð.